Skoðun

Fyrirsjáanleiki í frístundastarfi

Róbert Ragnarsson skrifar

Öruggt og stöðugt starfsumhverfi í frístundastarfi í Reykjavík er forsenda þess að hægt sé að veita faglega þjónustu og byggja upp starfsferil. Þess vegna er óásættanlegt að óvissa um mönnun frístundaheimila skapist ár eftir ár. Foreldrar vita ekki hvort þjónustan verði í boði, börnin finna fyrir óöryggi og starfsfólk býr við hlutastörf og ófyrirsjáanleika. Þetta þarf ekki að vera svona.

Fyrir foreldra í Reykjavík skiptir fátt meira máli en að börnin þeirra séu glöð og örugg í daglegu starfi. Skóla- og frístundastarf er hjarta hverfanna – þar sem börn upplifa öryggi, tilheyra samfélagi og byggja upp félagsfærni sem nýtist þeim alla ævi. Sama gildir um starfsfólkið.

Sem leiðtogi Viðreisnar í Reykjavík vil ég tryggja að foreldrar geti treyst á frístundaþjónustu og að starfsfólk hafi raunveruleg tækifæri til að byggja upp framtíð í frístundastarfi borgarinnar. Það næst ekki með tímabundnum lausnum og hlutastörfum. Við verðum að bæta starfsaðstæður í félagsmiðstöðvum og á frístundaheimilum, skapa fleiri heilsdagsstörf allt árið og setja starfsþróun í forgang. Það felst meðal annars í því að lögbinda þjónustu frístundastarfs og félagsmiðstöðva.

Börn eiga rétt á stöðugu frístundastarfi í sínu hverfi og starfsfólk á skilið að geta byggt upp þekkingu, reynslu og framtíð í starfi. Reykjavíkurborg býr yfir vel menntuðum og öflugum hópi starfsfólks sem við verðum að styðja betur við. Það er lykilatriði í forvörnum, velferð og jöfnum tækifærum barna.

Til að frístundastarf skili árangri þarf stöðugleika og fyrirsjáanleika. Of oft er um að ræða vanfjármögnuð og tímabundin verkefni sem framlengd eru frá ári til árs með tilheyrandi óvissu. Úrræði sem hafa sannað gildi sitt eiga að vera varanleg, svo sem Flotinn, Hinsegin félagsmiðstöðin og sértækt hópastarf á vegum félagsmiðstöðva.

Einnig þarf að styrkja þjónustu við aldurshópa sem falla milli kerfa.

16–18 ára ungmenni: Hitt Húsið sinnir þessum hópi að mestu í dag, en það er ekki nægjanlegt. Ungmenni á þessum aldri þurfa fleiri vettvanga og meiri fjölbreytni í sínu nærumhverfi.

10–12 ára börn: Þjónusta við þennan hóp er mjög takmörkuð þrátt fyrir augljós tækifæri til forvarna. Jafnframt má aldrei bæta þjónustu við yngri börn með því að draga úr starfi fyrir unglinga – það er óásættanlegt.

Rannsóknir sýna að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf er öflug forvörn. Öflugt og stöðugt frístundastarf er fjárfesting sem borgar sig. Í anda Viðreisnar viljum við tryggja stöðugleika, valkosti og ábyrgð í grunnþjónustu. Reykjavík á að vera borg þar menntun og störf sem tengjast frítíma barna og ungmenna eru metin sem framtíðarstörf – ekki bráðabirgðalausn.

Höfundur er stjórnmálafræðingur Msc. og frambjóðandi í 1. sæti í leiðtogavali Viðreisnar í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×