Viðskipti innlent

Auddi og Rakel hafa valið nafn og leita að starfs­kröftum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Auðunn Blöndal er spenntur fyrir því að opna hverfisstaðinn sem hefur fengið nafnið Fossinn.
Auðunn Blöndal er spenntur fyrir því að opna hverfisstaðinn sem hefur fengið nafnið Fossinn. Vísir/Vilhelm/Reitir

Fjölmiðlamaðurinn Auðunn Blöndal og konan hans Rakel Þormarsdóttir hafa valið nafn fyrir veitingastaðinn sem þau opna á næstunni á neðri hæð verslunarkjarnans Grímsbæjar í Reykjavík. Staðurinn heitir Fossinn, væntanlega með vísan í Fossvoginn, og þau eru nú í leit að starfsfólki til að taka á móti gestum og til starfa í eldhúsi staðarins.

„Kæru nágrannar, við erum að auglýsa eftir starfsfólki á hverfisstaðinn okkar, sem hefur fengið nafnið Fossinn,“ skrifar Auddi í færslu í Facebook-hóp íbúa í Fossvogi, 108 Reykjavík. Þau leita bæði að matreiðslufólki og fólki í þjónustustörf í sal staðarins.

Auðunn ræddi áformin í viðtali við Vísi í september þar sem hann sagði þau hjónin hafa verið með hugmyndina í maganum lengi. Þau hafi hins vegar þurft að bíða eftir réttu staðsetningunni. Hvorki verði um sportbar né skemmtistað heldur sé markmiðið að opna notalegan hverfisstað í anda Kaffi Vest í Vesturbænum. 

„Ég er búinn að búa í Fossvoginum í tæp tíu ár og við konan saman í sjö ár og hefur alltaf fundið hvað þetta hefur vantað: Kjarni þar sem fólk getur hist, fengið sér góðan bita og átt notalega stund,“ sagði Auðunn meðal annars í viðtalinu við Vísi í september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×