Innlent

Til­kynnir um ráðherraskipan á föstu­dag

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Inga Sæland formaður Flokks fólksins tilkynnir hvort og hvaða breytingar verða gerðar á ráðherraskipan flokksins á föstudag.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins tilkynnir hvort og hvaða breytingar verða gerðar á ráðherraskipan flokksins á föstudag. Vísir/Anton

Formaður Flokks fólksins býst við að tilkynnt verði á starfsfundi ríkisstjórnarinnar á föstudag hvaða breytingar verða á ráðherraskipan flokksins. Þá megi búast megi við nýrri reglugerð um strandveiðar í samráðsgátt í dag.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra hefur farið með málefni allra þriggja ráðuneyta Flokks fólksins í ríkisstjórn eftir að Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra fór í fæðingarorlof rétt fyrir jól og Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra fór í veikindaleyfi snemma í desember. Hún sagðist ekki búast við neinum breytingum á ráðherraskipan flokksins í samtali við fréttastofu fyrir áramót. Inga vildi ekki gefa upp hvað væri fram undan eftir ríkisstjórnarfund í morgun en frétta væri að vænta í vikunni.

Skýrist í vikunni

„Það hefur alltaf legið fyrir að ég hef ekki hugsað mér þessa þrjá hatta til frambúðar.  Þetta er skammtímalausn. Eins og við vitum þá var Guðmundur í hjartaaðgerð sem gekk vel og Eyjólfur  Ármannsson er vonandi að taka á móti barninu sínu í dag. Ekki seinna en á morgun. Hann verður kominn aftur inn á þingið á næstunni. Þannig að þetta á allt eftir að skýrast ekki seinna en nú í vikunni,“ segir Inga.

Aðspurð um hvort breytingar verði hjá henni svarar Inga:

„Það kemur allt í ljós í fyllingu tímans. Ég er að vonast til að þetta skýrist á starfsfundi ríkisstjórnarinnar á föstudaginn.“

Inga svarar engu um það hvort hún útiloki að hún muni færast í annað ráðuneyti.

„Eins og ég segi þá kemur þetta allt í ljós á föstudaginn,“ segir hún. 

Ætlar að tryggja strandveiðar

Strandveiðar tryggðar allt sumarið hafa verið eitt helsta baráttumál Flokks fólksins og ætlaði ríkisstjórnin að stækka strandveiðipottinn í 48 daga á síðasta ári. Það náðist þó ekki fyrir þinglok og strandveiðitímabilinu lauk á svipuðum tíma og síðustu ár. Inga segist hafa unnið áfram að verkefninu í innviðaráðuneytinu síðustu daga. 

„Ég er að koma með reglugerð og frumvarp sem lúta að strandveiðum. Við erum að tryggja strandveiðar í sumar eins og kostur er. Ég vonast til að reglugerðin komi inn í Samráðsgátt stjórnvalda í dag og frumvarp í kjölfarið,“ segir Inga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×