Skoðun

Orð ársins

Berglind Guðmundsdóttir skrifar

Ég spái mikið í orðum. Ég err samt enginn íslenskufræðingur og sletti kannski vel yfir meðallagi. En ég er hrifin af fallegum orðum og hrífst af því þegar talað er fallegt mál.

Um daginn heyrði ég til dæmis orðið gáruáhrif. Það var svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég heyri það orð, en samhengið var fallegt og ég fann hvernig það gróf sig inn. Svona gott fyrir hjartað.

Orð geta skapað jákvæða tilfinningu og orð geta látið okkur líða vel.

Orð hafa gáruáhrif og hvernig við notum þau getur síðan haft jákvæð, eða minna jákvæð, áhrif á líf okkar. Sem hefur svo áhrif á þau sem eru í kringum okkur, síðan á þau sem eru í kringum þau og svo koll af kolli.

Með þetta í huga gat ég ekki annað en orðið fyrir vonbrigðum þegar ég sá þau tíu orð sem RÚV bauð landsmönnum að kjósa sem Orð ársins 2025.

Orð eins og bikblæðing, græna gímaldið, gjaldskylda, málþóf, símabann, tollastríð og þjóðernishreinsanir.

Vissulega eitthvað sem var mikið í fréttum. En segir þetta ekki meira um áherslur fjölmiðla heldur en okkur sem samfélag?

Ég hefði persónulega svo gjarnan viljað sjá fleiri falleg orð á þessum lista, eins og samkennd, kærleikur, lífsgleði, stuðningur, samstaða, hugrekki og friður, svo ég nefni einhver dæmi.

Því við þurfum á fallegum orðum að halda, nú sem aldrei fyrr.

Við þurfum líka fleiri fréttir af hetjum samtímans. Af fólkinu sem gerir samfélagið okkar betra með einum eða öðrum hætti. Og þar er svo sannarlega af nægu að taka.

Þetta er bara spurning um hvert við viljum beina athygli okkar.

Getum við, sem samfélag, sett okkur það markmið að fjölga fallegum orðum fyrir árið 2026?

Höfundur er í stjórn Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×