Erlent

Aðgerðasinnar tóku raf­magnið af Ber­lín

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Aðgerðunum er sagt hafa verið beint að notkun á jarðefnaeldsneyti og voru fátæklingar sérstaklega beðnir afsökunar á óþægindunum sem rafmagnsleysið veldur.
Aðgerðunum er sagt hafa verið beint að notkun á jarðefnaeldsneyti og voru fátæklingar sérstaklega beðnir afsökunar á óþægindunum sem rafmagnsleysið veldur. Christoph Gollnow/dpa via AP

Hópur vinstrisinnaðra aðgerðarsinna sem kallar sig Vulkan Gruppe, eða eldfjallahópinn, hefur tekið ábyrgðina á víðtæku rafmagnsleysi sem varð í höfuðborg Þýskalands, Berlín, um helgina.

Tugþúsundir heimila voru án rafmagns þegar mest var og þá fór straumurinn af fjölmörgum spítölum, skrifstofum og opinberum byggingum. Búist er við því að viðgerðum verði ekki að fullu lokið fyrr en á fimmtudaginn kemur og verða nokkrir skólar borgarinnar lokaðir framan af vikunni.

Vandræðin hófust snemma á laugardagsmorgun þegar eldur fór að loga í rafmagnsköplum á brú einni í vestur-Berlín en brúin er í grennd við orkuver í útjaðri borgarinnar. Ljóst var að um íkveikju var að ræða en skamman tíma tók að slökkva eldinn en þá var skaðinn skeður, og rafmagn farið af stórum hluta borgarinnar.

Aðgerðahópurinn Vulkan sendi svo frá sér yfirlýsingu þar sem segir að aðgerðin hafi verið til að mótmæla notkun jarðefnaeldsneytis í landinu og að lokum voru fátækir Berlínarbúar beðnir afsökunar á óþægindunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×