Lífið

„Á bak við fíkn er alltaf áfalla­saga“

Atli Ísleifsson skrifar
Tolli hefur í áraraðir farið inn í fangelsi landsins til þess að halda þar hugleiðslur, 12 spora fundi og fleira og það er óhætt að segja að hann hafi haft mikil áhrif á líf margra sem hafa endað í fangelsum á Íslandi.
Tolli hefur í áraraðir farið inn í fangelsi landsins til þess að halda þar hugleiðslur, 12 spora fundi og fleira og það er óhætt að segja að hann hafi haft mikil áhrif á líf margra sem hafa endað í fangelsum á Íslandi.

Tolli Morthens myndlistarmaður segist ævarandi þakklátur fyrir að vera að uppskera ríkulega eftir áralanga vinnu í sjálfum sér og fyrir samfélagið.

Tolli, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir vegferð sína oft á tíðum hafa verið mjög erfiða, en nú finni hann ríkulega uppskeru, sem meðal annars birtist í risastórri viðurkenningu þar sem honum voru veitt eins konar „Nóbelsverðlaun Asíu“ fyrir skemmstu. Hann segist bjartsýnn á að það séu góðir og fallegir tímar fram undan, bæði hér heima og í heiminum.

„Ég er bjartsýnn á að það séu mjög góðir hlutir að gerast bæði á Íslandi og í heiminum. Mér finnst heimurinn alls ekkert vera að fara til helvítis, heldur þvert á móti. Það er svo mikið af flottu fólki úti um allt að vinna frábæra hluti, þó að við heyrum ekkert endilega af því alla daga í fjölmiðlum.

Við búum við kerfi þar sem heimurinn hefur verið leiddur áfram af leiðtogum sem eru ofurseldir eigin áföllum og eru sjálfhverfir og algjörlega aftengdir samkennd. Svo búa þessir einstaklingar sem eru í gríðarlegu ójafnvægi til afleiðingar fyrir milljónir manna. Þannig að stundum lítur út fyrir að heimurinn sé ekki á góðum stað. En á móti þessu er bara staðan sú að það er að verða gríðarlega mikil vakning hjá nafnlausum fjölda um heim allan. Við erum milljónir sem erum á þeirri vegferð að hugsa um náungann og vinna með kærleika og samkennd. Það eru að verða mikil smitáhrif af því um allan heim. Ég er bjartsýnismaður og trúi því einlæglega að mannkynið sé á leiðinni í ákveðna vitundarvakningu og það séu mjög fallegir hlutir að gerast.”

Afleiðingar áfallasögu

Tolli hefur í áraraðir unnið með föngum eftir að hafa sjálfur þurft að gefast upp og fara í meðferð vegna fíkniójafnvægis og áfalla í æsku. Hann segir tímabært að samfélagið fari að horfa á fólk í fíkn og afbrotum sem afleiðingar áfallasögu.

„Á bak við fíkniójafnvægi er alltaf áfallasaga. Það koma upp partar innra með okkur til að verja okkur og við erum komin úr tengslum við okkur sjálf. Kerfin innra með okkur magna upp varnir og vilja forða okkur frá sársauka. Úr því verða svo oft til skakkar leiðir til þess að eiga við lífið og tilveruna. Þegar fólk sem hefur lent í miklum áföllum kemst allt í einu í tæri við áfengi eða önnur efni sem hjálpa þér að komast í skamma stund í algjöra núvitund er ekki óeðlilegt að til verði fíknivítahringur.

Maðurinn vill gjarnan vera í núvitundarástandi öllum stundum, þannig að það er ekki óeðlilegt að fólk sæki í það ástand með öllum tiltækum leiðum, sérstaklega ef æska þín og líf hefur verið markað miklum áföllum og sársauka. En út frá þessu hefst svo oft ferðalag mikillar fíknar, sem getur endað með geðveiki eða dauða. Okkar samfélag er undirlagt af ójafnvægi, en margir ná að halda fíkn sinni á þann hátt að þeir halda áfram að funkera í daglegu lífi.”

Friðarverðlaun á Filippseyjum

Tolli fékk nýlega stór friðarverðlaun á Filippseyjum og segir hann að ræðunni hafi verið sjónvarpað til um 50 milljón manna. Verðlaunin fékk hann fyrir starf sitt í fangelsum Íslands um áratuga skeið. Það var því viðeigandi að hann væri mættur beint á Litla-Hraun daginn eftir að hann kom aftur heim.

„Daginn eftir að ég kom heim úr ferðinni, þar sem ég tók á móti friðarverðlaunum Gusi í Asíu, var ég mættur beint á Litla-Hraun til að halda hugleiðslu með föngunum. Þar var Halla forseti mætt. Hún er stórkostleg manneskja. Ég vissi ekki hvaða mann hún hafði að geyma, en er ríkari maður eftir að hafa kynnst henni. Hún hafði áður lýst yfir áhuga á að styðja starfið okkar í fangelsunum þegar rétti tíminn kæmi og þegar við ákváðum að vera með þessa jólaathöfn núna ákvað hún að mæta. Það var metmæting í fangelsinu og hún talaði svo fallega til strákanna sem sitja þarna inni. Þarna í salnum fór svo fram hugleiðsla og tónheilun og Halla lagðist á sína jógadínu eins og aðrir og það var dauðaþögn og kyrrð í salnum og bara tónninn úr hljóðskálunum. Þá stend ég upp og horfi yfir hópinn þar sem allir liggja saman eins og einn maður.

Sá sem leiddi athöfnina var strákur sem hafði setið í eitt og hálft ár í öryggisfangelsinu að Sogni, verið stoppaður upp af geðlyfjum á meðan hann var þar og missti málið og átti mjög erfiða göngu, enda var hans fíkniójafnvægi mjög „brútal“. En svo fékk hann tækifæri og greip það og tók ábyrgð á sjálfum sér. Þarna situr hann við hliðina á forseta Íslands og leiðir hana í gegnum jóga-nidra og tónheilun. Þetta er lítið dæmi um hvað getur gerst þegar við nálgumst hlutina frá kærleika og samkennd.”

Mætir föngunum af kærleika og heiðarleika

Tolli hefur í áraraðir farið inn í fangelsi landsins til þess að halda þar hugleiðslur, 12 spora fundi og fleira og það er óhætt að segja að hann hafi haft mikil áhrif á líf margra sem hafa endað í fangelsum á Íslandi. Hann segir að leiðarljós sitt hafi alltaf verið það eitt að mæta föngunum með algjörum kærleika og í fullum heiðarleika.

„Ég man þegar ég fór fyrst inn í fangelsin til að halda hugleiðslu að ég var hálf óttasleginn og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að bera mig að. Þá fékk ég gott ráð frá reyndum manni sem sagði: „Tolli, það eru allir búnir að reyna, pabbi, mamma, presturinn, lögfræðingurinn, lögreglan, börnin og vinirnir, en það virkar ekkert. Það eina sem þú getur snert þessa stráka með er kærleikur og heiðarleiki. Þarna opnaðist eitthvað fyrir mér. Ef einstaklingurinn er öruggur með þér og treystir þér, þá heyrir hann í þér og þú getur byrjað samtal. Að vera alveg heiðarlegur og tengdur við kærleikann gerir þig óttalausan.

Það að fá að vinna með föngum og bræðrum okkar og systrum sem ganga erfiðustu gönguna er stærsta gjöf sem ég hef fengið. Það að fá að láta gott af mér leiða hefur gert líf mitt betra á allan hátt. Þannig að í raun er ég alltaf að gera þetta fyrir sjálfan mig líka. En það að fá þessi friðarverðlaun í Asíu fyrir vinnuna mína í fangelsunum er auðvitað stórkostlegt. Fyrst fékk ég þessa miklu viðurkenningu frá forsetanum sem er fálkaorðan, og svo kom þetta, sem eru í raun Nóbelsverðlaun Asíu.

Maður stendur upp á sviði í útsendingu sem 50 milljónir manna horfðu á. Þú ert í raun talsmaður þess að fara með kærleika inn í fangelsi heimsins og talsmaður allra þeirra sjálfboðaliða um allan heim sem eru að vinna fallega vinnu inni í fangelsunum. Þessi verðlaun og fálkaorðan eru þar af leiðandi líka gríðarleg viðurkenning fyrir félaga mína og alla þá sem hafa unnið þessa vinnu með mér í gegnum árin. Þegar maður vinnur hlutina af skilyrðislausum kærleika með það eitt að markmiði að láta gott af sér leiða gerast stundum undraverðir hlutir.”

Notar „svettið“

Eitt af því sem Tolli hefur notað sem stórt verkfæri í sinni sjálfsvinnu í gegnum tíðina er svokallað svitahof eða „svett“, sem kemur úr menningarheimi Indjána. Þessi forni helgisiður er leið til þess að hreinsa líkama og huga, þar sem setið er inni í myrku tjaldi í hita og þar farið með möntrur og fleira til þess að tengjast inn á við.

„Ég kynntist svettinu í kringum 1995-96 þegar ég var nýlega orðinn edrú. Þetta var á tímabili þegar alls kyns hlutir voru að vefjast fyrir mér, eins og hvað æðri máttur væri og hvað væri að vera andlega þenkjandi. Þessi vegferð var oft ekkert auðveld fyrir mann eins og mig, gamlan marxista með alls konar skoðanir á hlutunum. En það gerðist eitthvað inni í tjaldinu og ég hugsaði bara: „Þetta er æðri máttur og þetta er að vera andlegur og þetta ætla ég alltaf að gera.”

Ég vissi mjög fljótlega að ef ég ætlaði að hafa þetta sem reglulegan þátt í mínu lífi, þá yrði ég bara að læra þetta og gera þetta sjálfur og það tækifæri kom svo árið 2007, þegar ég eignaðist land í Kjósinni og gat sett upp tjald þar. Síðan þá hefur þetta bara verið mjög reglulegur þáttur í mínu lífi og við svettuðum bara síðast í gær, eins og þú veist, enda varstu með okkur í tjaldinu. Þetta er aldagömul hefð sem kemur frá fyrstu þjóðum Norður- og Mið-Ameríku og ég er innilega þakklátur fyrir að þetta hafi verið opnað fyrir umheiminum. Þarna er unnið með frumefnin vind, vatn, eld og jörð. Þetta er gríðarlega kraftmikið verkfæri til að slá út sjálfsstýringu hugans sem við erum alltaf föst í. Þetta hljómar kannski eins og eitthvað vúdu fyrir þá sem ekki þekkja, en þetta er líka hellings rokk og ról. Það eru trommur og söngur, samkennd og gleði,” segir Tolli.

Nýtt líf, ný tækifæri og nýr skilningur

Tolli segir svettið eitt af fjölmörgum verkfærum sem hann hafi notað á þeirri vegferð að tengjast sjálfum sér hægt og rólega betur og betur.

„Mitt ferðalag í því að finna út hver ég er hefur verið löng vegferð. Ég fór í meðferð 42 ára gamall og eftir það hófst 12 spora gangan með þeim tækjum og tólum sem ég fann þar. En ég var búinn að vera edrú í 10 ár þegar ég fattaði að ég vissi í raun ekki hver ég væri. Ég stóð alltaf fyrir framan sömu hurðina, en komst bara ekki í gegnum hana. Alltaf sami múrinn fyrir framan mig, alveg sama hvað ég fór á marga fundi.

Edrúmennskan færði mér sannarlega nýtt líf, ný tækifæri og nýjan skilning, enda kemst maður voðalega lítið áfram í lífinu ef maður er að setja í sig mikið af áfengi eða efnum. En þrátt fyrir að hafa verið edrú í allan þennan tíma var ég þarna á tímamótum af því að ég vissi ekki hver ég var og upplifði enn þá mikla óreiðu í lífi mínu. En ég var svo heppinn að að hafa Gunnýju konuna mína mér við hlið og ég elti hana inn í þá vegferð að fara að hitta þerapista og svo kom svettið inn og síðan búddisminn og núvitundarhugleiðsla sem hafði mjög mikil og góð áhrif á líf mitt.

Ég er alltaf að sjá það betur og betur að leiðin heim að raunverulega sjálfinu felst í því að verða færari og færari í að sleppa stöðugt tökum á alls konar pörtum og varnarkerfum. Svettið er eitt besta verkfærið sem ég hef fundið í því að læra að sleppa takinu og þora að stíga inn í óttann. Inni í tjaldinu hef ég raunverulega náð að upplifa þessa fallegu tilvitnun: „The War is Over, we are going home“. Og þá skilur maður hvað þessir miklu meistarar eins og Jesús, Búdda og fleiri áttu við með þeirri staðhæfingu að allt sem við leitum að búi nú þegar innra með okkur. Að himnaríki búi nú þegar innra með okkur. Leiðin til að finna það er að sleppa stöðugt meira tökunum af skilyrðingum, pörtum, ótta og varnarháttum sem hafa haldið okkur á lífi í gegnum áföll og erfiðleika lífsins. Þannig kemst maður nær og nær hinu raunverulega sjálfi, sem er fyrir mér leiðin aftur heim. En það er enginn endapunktur á þeirri vegferð að komast að því hver maður er í raun og veru. En ferðalagið sjálft, að komast að því, er algjört ævintýri.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Tolla og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.