Körfubolti

„Toms mun færa okkur aukna vídd í sóknarleikinn“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, týndi til nokkra jákvæða punkta þrátt fyrir tapið. 
Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, týndi til nokkra jákvæða punkta þrátt fyrir tapið.  Vísir/Ernir

Jakob Sigðurðarson, þjálfari KR, hefði viljað sjá leikmenn sína gera betur í baráttunni um fráköst þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Stjörnunni í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld. 

„Við vorum allt of passívir í okkar aðgerðum á báðum endum vallarins í fyrri hálfleik. Við förum yfir það í gegnum fyrstu þrjá leikhlutana að við þyrftum að gera hlutina af meiri sannfæringu. Við hrukkum í gang í þriðja leikhluta og það er sárt að fá ekkert út úr leiknum eftir að hafa lagt á okkur svona miklu vinnu,“ sagði Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, eftir leik.

„Við vorum í vandræðum með fráköst allan leikinn, einkum og sér í lagi með Seth. Það var svo að lokum sóknarfrákast hjá Seth sem fer með okkur og tryggir þeim sigur. Það er blóðugt að þeir fái tvo sjénsa í lokasókn sinni og við hefðum að frákasta betur þar og allan leikinn raunar,“ sagði Jakob þar að auki.

„Það er margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessum leik. Sóknarleikurinn var heilt yfir góður og við náðum upp fínum varnarleik á köflum í seinni hálfleik. Við vildum hins vegar sigur eins og í öllum leikjum sem við spilum og förum því hundsvekktir héðan,“ sagði hann.

Jakob var ánægður með nýjasta liðsmann KR-liðins, Toms Leimanis, og væntir mikils af honum það sem eftir lifir tímabils: „Toms spilaði bara vel og skilaði góðu framlagi. Hann er búinn að mæta á tvær æfingar með okkur og sýndi það strax í fyrsta leik að þetta er leikmaður í háum gæðaflokki. 

Honum líður vel með boltann, er með gott skot og gefur okkur aukna vídd í sóknarleikinn. Við væntum þess að hann bæti liðið töluvert enda ferilskráin þannig að um er að ræða gæðaleikmann,“ sagði Jakob um Lettann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×