Körfubolti

Nýja árið byrjaði á flengingu á heima­velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk ekki vel hjá Tryggva Snæ Hlinasyni og félögum í Baskalandi í kvöld.
Það gekk ekki vel hjá Tryggva Snæ Hlinasyni og félögum í Baskalandi í kvöld. Getty/Alberto Gardin/

Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason byrjaði nýja árið ekki vel í spænska körfuboltanum.

Tryggvi og félagar í Bilbao steinlágu þá á heimavelli á móti gamla liði Tryggva, Valencia Basket. Valencia vann leikinn á endanum með 44 stiga mun, 116-72.

Tryggvi átti heldur ekkert sérstakan leik, tók bara eitt frákast á sautján mínútum en skoraði fimm stig.  Hann stal einum bolta en gaf hvorki stoðsendingu né varði skot.

Bilbao tapaði fráköstunum 43-23 og hitti aðeins úr 22 prósent þriggja stiga skota sinna. Hreinlega hörmungarframmistaða í fyrsta leik ársins.

Tryggvi tróð þó boltanum tvisvar í körfuna í leiknum. Bilbao tapaði þó bara með þremur stigum þegar hann var inni á vellinum og hann hefði því mátt spila meira í kvöld.

Stigahæsti maður liðsins var Luke Petrasek með 23 stig á 23 mínútum en Margiris Normantas skoraði 15 stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×