McGinn með tvennu í öruggum sigri Aston Villa

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fyrirliðinn var í fantastuði gegn Forest.
Fyrirliðinn var í fantastuði gegn Forest. Martin Rickett/PA Images via Getty Images

Aston Villa vann 3-1 gegn Nottingham Forest í 20. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Ollie Watkins braut ísinn fyrir heimamenn undir lok fyrri hálfleiks og John McGinn skoraði tvennu í seinni hálfleik.

Aston Villa sneri þarna aftur á sigurbraut og komst upp í annað sæti deildarinnar eftir stórt tap í síðustu umferð en ellefu sigurleiki þar á undan. Nottingham Forest hefur hins vegar tapað fjórum deildarleikjum í röð, sjö af síðustu tólf og situr í sautjánda sætinu.

Leikurinn bar þess merki að þarna væru lið á sitt hvorum enda töflunnar að mætast. Heimamenn sýndu mikla yfirburði en gestirnir vörðust.

Eftir margar tilraunir tókst Aston Villa loks að skora í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Ollie Watkins átti gott skot fyrir utan vítateig eftir sendingu frá Morgan Rogers.

Töpuðu boltanum aftur í upphafi seinni hálfleiks

Í upphafi seinni hálfleiks tapaði Nottingham Forest boltanum aftur á eigin vallarhelmingi og Aston Villa refsaði. Matty Cash sendi boltann þá á fyrirliðann John McGinn sem skoraði og fagnaði eins og ofurmennið Hulk.

Gibbs-White minnkaði muninn

Nottingham tókst að minnka muninn, þvert gegn gangi leiksins, eftir rúmlega sextíu mínútur. Morgan Gibbs-White skoraði þá eftir snögga skyndisókn og stoðsendingu frá Dilane Bakwa.

Markmaðurinn í skógarhlaupi

En Aston Villa var enn með yfirhöndina og fyrirliðinn McGinn skoraði annað mark eftir rúmlega sjötíu mínútna leik.

Markmaður Nottingham Forest, John Victor, fór út í mjög slæmt skógarhlaup og leit hreint hræðilega út í því marki.

Hann lagðist svo í grasið og hélt um kálfann þangað til varamarkmaðurinn Matz Sels kom inn á.

Sels þurfti ekki að hafa sig við því fleiri skot voru ekki tekin.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira