Enski boltinn

Færir sig um set í Lundúnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Brennan Johnson var einn besti leikmaður Tottenham á síðasta tímabili en hefur lítið spilað á þessu tímabili. 
Brennan Johnson var einn besti leikmaður Tottenham á síðasta tímabili en hefur lítið spilað á þessu tímabili. 

Brennan Johnson mun gangast undir læknisskoðun hjá Crystal Palace í dag og kveðja Tottenham, sem samþykkti 35 milljóna punda tilboð í velska framherjann.

Crystal Palace vonast til þess að ganga alveg frá félagaskiptunum í dag svo Johnson geti tekið þátt í leik liðsins gegn Newcastle á sunnudag.

Johnson er 24 ára gamall og var markahæsti leikmaður Tottenham á síðasta tímabili með 18 mörk í öllum keppnum, þeirra á meðal markið sem tryggði Tottenham sigur í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Þrátt fyrir það er hann ekki hluti af framtíðaráformum félagsins og danska þjálfarans Thomas Frank.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu síðan fyrir áramót og nú virðist allt frágengið, nema læknisskoðun, og Johnson mun eignast nýjan heimavöll í Suður-Lundúnum eftir að hafa spilað í Norður-Lundúnum síðan 2023.

Johnson er fæddur í Englandi en á ættir að rekja til Wales og spilar fyrir velska landsliðið. Einhverjir stuðningsmenn íslenska landsliðsins muna eflaust eftir markinu sem hann skoraði á Laugardalsvelli í október 2024, þegar Logi Tómasson tryllti lýðinn í 2-2 jafntefli.

Tottenham gerði markalaust jafntefli við Brentford í gærkvöld og liðinu skorti ákefð sóknarlega en eftir leik sagði þjálfarinn Thomas Frank að bráðum myndu Lucas Bergvall, Xavi Simons og Dominic Solanke snúa aftur úr meiðslum. Auk þess myndi félagið skoða sig um á félagaskiptamarkaðnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×