Erlent

Segjast hafa svið­sett af­töku og hirt verðlaunaféð af Rússum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskur hermaður við æfingar.
Úkraínskur hermaður við æfingar. Getty/Anadolu/Diego Herrera Carcedo

Öryggis- og hermálayfirvöld í Úkraínu segjast ekki aðeins hafa sett á svið aftöku Rússa sem stjórnvöld í Rússlandi eru sögð hafa viljað dauðan, heldur einnig hirt verðlaunaféð sem hafi verið sett honum til höfuðs.

Frá þessu var greint í gær en maðurinn sem um ræðir heitir Denis Kapustin, einnig þekktur undir nafninu Denis Nikitin, og er sagður fara fyrir sjálfboðaliðasveit Rússa sem berjast fyrir Úkraínu og svokallaðri Timur-sérsveit. 

Tilkynnt hafði verið á laugardag að Kapustin hefði verið drepinn en í gær birtist hann á myndskeiði ásamt Kyrylo Budanov, yfirmanni leyniþjónustu úkraínska hersins. Þá var greint frá því að yfirvöld í Rússlandi hefðu fyrirskipað að ráða ætti Kapustin af dögum en sviðsetning morðsins hefði miðað að því að afhjúpa þá sem höfðu staðið að fyrirskipuninni og þá sem áttu að framfylgja henni.

Að sögn Budanov tókst einnig að innheimta verðlaunaféð sem hafði verið heitið fyrir morðið á Kapustin; 500 þúsundi dali.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni er Kapustin alls enginn engill. Er hann meðal annars þekktur fyrir tengsl við öfga hægri öfl og ofbeldi á knattspyrnuleikjum. Þá eru sumir hermanna hans sagðir aðhyllast ný-nasisma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×