Innlent

Langar raðir á Sorpu eftir há­tíðarnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fólk er hvatt til að mæta vel undirbúið á Sorpu.
Fólk er hvatt til að mæta vel undirbúið á Sorpu. Vísir/Ívar Fannar

Aðsókn í endurvinnslustöðvar Sorpu eykst um sextíu prósent í kringum hátíðarnar og er engin undantekning þar á þessi jól. Upplýsingafulltrúi Sorpu biðlar til fólks að mæta vel undirbúið á stöðvarnar.

Margir hafa eflaust lagt leið sína á endurvinnslustöð á síðustu dögum eftir hátíðarhöldin og ruslið sem þeim fylgja. Starfsmenn Sorpustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu höfðu í nógu að snúast enda eykst aðsókn þangað ávallt í kringum hátíðisdaga.

„Jólin og nýársdagur eru þar engin undantekning. Við sjáum síðustu þrjá dagana fyrir aðfangadag, dagana milli jóla og nýárs og fyrstu tvær helgarnar á nýju ári þá eru þetta yfirleitt aðsóknarmestu dagarnir hjá okkur. Þannig að það er brjálað að gera,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson samskipta- og þróunarstjóri Sorpu. 

Þetta eigi sérstaklega við um árið í ár, þar sem bæði jól og áramót hitta á virka daga.

„Fyrsti dagur eftir hátíðarnar er laugardagur og þá komu hjá okkur einhverjir 4500 bílar, en meðaldagur, ef þú tekur árið flatt, eru 2800 bílar. Þannig að þetta er mikil aukning í aðsókn á einum degi.“

Hann hvetur fólk til að bíða aðeins með ferðina í Sorpu vilji það ekki hanga í löngum röðum.

„Þá eru þetta yfireitt þannig hlutir að þeir geta tórað i skottinu á bílnum eða í bílskúrnum eða í pokunum aðeins inn í nýja árið. Þá er aðeins minna að gera, allir afslappaðri og það er hægt að fara hraðar og betur í gegnum stöðvarnar okkar,“ segir Gunnar Dofri. 

Þá minnir hann á grenndargámana, en lögð var mikil áhersla á það að þeir yrðu tæmdir um leið og þeir fylltust þessi jólin. Gunnar Dofri biðlar til þeirra sem hætta sér á endurvinnslustöðvarnar að mæta vel undirbúnir.

„Að það sé ekki tekið í panikki, allt sem þú finnur laust heima hjá þér og hent í bílinn og ætla svo að díla við það þegar þú kemur á staðinn. Þá bæði tefurðu fyrir sjálfum þér og öðrum.“


Tengdar fréttir

Lengja opnun, gleðja starfsfólk og spara peninga

Mikil breyting hefur verið gerð á opnunartíma Sorpu sem bæði opnar nú dyr sínar fyrr og lokar þeim síðar. Ekki er talið að breytingin feli í sér aukinn kostnað heldur raunar sparnað. Breytt vaktakerfi þýðir að starfsfólk vinnur færri helgar en áður.

Breyttur opnunartími hjá Sorpu

Sorpa hefur breytt opnunartíma á endurvinnslustöðvum sínum við Sævarhöfða, Breiðhellu, Ánanaust, Jafnasel og Dalveg. Þar verður framvegis opið frá 9 til 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×