Enski boltinn

Villa kvartar til Chelsea vegna flösku sem flaug á bekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Unais Emery eru í hörkutoppbaráttu í ensku úrvalsdeildinni.
Strákarnir hans Unais Emery eru í hörkutoppbaráttu í ensku úrvalsdeildinni. getty/Marc Atkins

Eftir sigurinn á Chelsea, 1-2, í gær kvartaði Aston Villa undan því að flösku var kastað í átt að varamannabekk liðsins í leikslok.

Eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik kom Villa til baka á Stamford Bridge í gær og landaði 2-1 sigri, þökk sé tveimur mörkum frá Ollie Watkins.

Í fagnaðarlátunum eftir leikinn endaði flaska á varamannabekk Villa og vatn skvettist yfir viðstadda. Ekki liggur fyrir hvort flöskunni var kastað af varamannabekk Chelsea eða úr stúkunni.

Hvort heldur sem er hefur Villa kvartað við Chelsea undan atvikinu. Lundúnafélagið heitir því að vera samvinnuþýtt við rannsókn málsins.

Sigurinn í gær var sá ellefti í röð hjá Villa í öllum keppnum. Liðið hefur unnið átta leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og er í 3. sæti hennar með 39 stig, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal sem er einmitt næsti andstæðingur Villa. Liðin mætast á Emirates á þriðjudaginn.

Chelsea er aftur á móti með 29 stig í 5. sæti deildarinnar en liðið hefur ekki safnað mörgum stigum undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×