Erlent

Segir unnið að því að móta sam­eigin­lega nálgun Banda­ríkjanna, Úkraínu og Evrópu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Witkoff og Jared Kushner, tengdasonur Trump, hafa farið fyrir viðræðunum við Úkraínu og Evrópu.
Witkoff og Jared Kushner, tengdasonur Trump, hafa farið fyrir viðræðunum við Úkraínu og Evrópu. Getty/Clemens Bilan

Steve Witkoff, sendifulltrúi Donald Trump Bandaríkjaforseta í málefnum Úkraínu, sagði á samfélagsmiðlum í gær að hann hefði átt uppbyggilegar og árangursríkar viðræður við fulltrúa Úkraínu og Evrópu í Flórída.

Sagði hann viðræðurnar hafa snúist um að komast að samkomulagi um sameiginlega nálgun Bandaríkjanna, Úkraínu og Evrópu til að binda enda á stríðið í Úkraínu.

„Það er sameiginlegt forgangsatriði okkar að binda enda á drápin, tryggja öryggi og skapa grundvöll fyrir endurreisn, stöðugleika og velsæld Úkraínu. Friður má ekki bara snúast um að binda enda á átök heldur um að leggja grunn að stöðugleika í framtíðinni,“ sagði Witkoff.

Bandaríkjamenn hafa einnig átt í viðræðum við fulltrúa Rússlands, sem segja þær hafa verið uppbyggilegar. Engar vísbendingar eru hins vegar uppi um að Rússar hafi slegið af kröfum sínum, sem varða meðal annars yfirráð yfir landsvæðum í Úkraínu, takmarkanir á sjálfræði Úkraínu og ýmsa aðra þætti.

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti sagði á Telegram í gær að nokkur gangur hefði verið í viðræðunum vestanhafs. Á laugardag hafði hann sagt að Bandaríkjamenn hefðu lagt til viðræður milli þeirra, Úkraínumanna og Rússa. Rússar hafa hins vegar neitað að slíkar viðræður séu á borðinu.

Greint var frá því um helgina að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefði lýst yfir vilja til að ræða við Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Frakkar segja það samtal mögulega munu eiga sér stað á næstu dögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×