Körfubolti

Hjalti Þór ráðinn aðal­þjálfari Álfta­ness

Aron Guðmundsson skrifar
Hjalti Þór er alfarið tekinn við þjálfun Bónus deildar liðs Álftaness í körfubolta. Hann var áður aðstoðarþjálfari liðsins undir stjórn Kjartans Atla Kjartanssonar
Hjalti Þór er alfarið tekinn við þjálfun Bónus deildar liðs Álftaness í körfubolta. Hann var áður aðstoðarþjálfari liðsins undir stjórn Kjartans Atla Kjartanssonar Vísir/Hulda Margrét

Hjalti Þór Vilhjálmsson hefur verið ráðinn aðalþjálfari karlaliðs Álftaness í körfubolta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Álftnesingum í kvöld. Hjalti var áður aðstoðarþjálfari liðsins undir stjórn Kjartans Atla Kjartanssonar. 

Kjartan Atli, sem hafði áður gert góða hluti með lið Álftaness og meðal annars komið því upp í efstu deild og fest það þar í sessi, sagði upp störfum eftir stórt tap gegn Tindastól í Bónus deildinni á dögunum.

Á þeim tímapunkti var Hjalta Þór, aðstoðarþjálfara Álftaness, falið að stýra liðinu í næstu tveimur leikjum þess á meðan að leit stæði yfir að næsta þjálfara liðsins. Leikirnir tveir voru báðir gegn Stjörnunni, annars vegar í bikarnum og hins vegar í deildinni og töpuðust báðir en stjórnarmenn körfuknattleiksdeildar félagsins virðast hafa séð jákvæða punkta hjá liðinu og því komist að þeirri niðurstöðu að ráða Hjalta sem þjálfara liðsins til frambúðar. 

„Hjalti er einstakur innan vallar sem utan. Hann brennur bæði fyrir körfuboltaþjálfun og samfélaginu hér á Álftanesi. Við erum gríðarlega ánægðir að halda honum innan klúbbsins,“ lætur Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness, hafa eftir sér í fréttatilkynningu deildarinar.

Ívar Ásgrímsson hefur þá verið ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins. Ívar er þaulreyndur þjálfari sem er einnig starfandi framkvæmdastjóri Ungmennafélags Álftaness. 

Ívar Ásgrímsson er mættur aftur í þjálfunVísir/Anton Brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×