Handbolti

Slæm fjár­hags­staða HSÍ kemur ekki niður á EM

Aron Guðmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands 
Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands  Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Snorri Steinn Guðjónsson segist ekki háður takmörkunum frá HSÍ varðandi undirbúning og þátttöku íslenska landsliðsins á komandi Evrópumóti í handbolta. 

Fyrir tvo æfingarleiki sem að Ísland spilaði gegn Þýskalandi ytra í upphafi nóvember var greint frá því að Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins gæti ekki tekið með fullt starfsteymi í það verkefni vegna slæmrar fjárhagsstöðu HSÍ. 

Á þeim tíma sagði Róbert Geir Gíslason, fráfarandi framkvæmdastjóri HSÍ, að reynt yrði að fara með fullt starfsteymi á komandi Evrópumót í janúar.

Snorri Steinn tilkynnti á dögunum átján manna leikmannahóp Íslands sem heldur á EM í næsta mánuði og við það tækifæri var hann spurður að því í viðtali hjá Sýn hvort slæm fjárhagsstaða HSÍ yrði til þess að hann væri háður einhverjum takmörkum varðandi stærð teymis eða annars sökum fjárhagsstöðunnar. Svo er ekki. 

Klippa: Fær grænt ljós á að gefa allt í botn fyrir EM

„Nei alls ekki, það hefur alltaf legið fyrir. Já þetta tiltekna verkefni í Þýskalandi var eitthvað verið að skera niður. Þá var hins vegar alltaf tekið fram að þegar kæmi að stórmóti þá yrði ekkert haldið aftur af sér og seglin ekki dregin saman. Við færum bara af fullum krafti inn í það verkefni og allir á sömu blaðsíðu hvað það varðar. 

Það bara veitir ekki af að hafa allar hendur með, það er nóg að gera hjá öllum og margt sem getur komið upp á. Ég var alveg meðvitaður um þetta og vissi alveg stöðuna á þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×