Fótbolti

Fjórir frá hjá Blikum á morgun

Valur Páll Eiríksson skrifar
Blikar verða án fjögurra leikmanna á morgun. Þrír eru meiddir og Tobias Thomsen er farinn frá félaginu.
Blikar verða án fjögurra leikmanna á morgun. Þrír eru meiddir og Tobias Thomsen er farinn frá félaginu. vísir/Diego

Danski framherjinn Tobias Thomsen er ekki með leikmannahópi Breiðabliks sem spilar við Strasbourg í Frakklandi í Sambandsdeild Evrópu annað kvöld. Hann hefur samið við danskt félag og tekur ekki þátt í verkefninu. Þrír Blikar eru þá meiddir.

Thomsen er að klára samning sinn í Kópavogi og hefur þegar samið um að leika fyrir HB Köge í Danmörku á nýju ári. Fótbolti.net hefur eftir Ólafi Inga Skúlasyni, þjálfara Breiðabliks, að Thomsen sé ekki með Blikum þar ytra og hafi leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

Tobias Thomsen gekk í raðir Breiðabliks fyrir tímabilið í ár og skoraði 12 mörk í 27 leikjum fyrir liðið í ár. Áður hafði hann leikið fyrir Val og KR hér á landi.

Þrír leikmenn eru frá vegna meiðsla hjá Blikum fyrir leik morgundagsins. Valgeir Valgeirsson, Anton Logi Lúðvíksson og Ásgeir Orri Helgason eru allir frá.

Breiðablik mætir Strasbourg klukkan 20:00 annað kvöld og verður leikurinn sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×