Skoðun

Bréfið sem aldrei var skrifað

Grímur Atlason skrifar

Í tilefni bréfs Félags bráðalækna, sem undirritaður tekur heilshugar undir, er hér bréfið sem aldrei var skrifað.

Opinbert bréf geðlækna vegna alvarlegra brota á mannréttindum sjúklinga í þjónustu

Geðlæknar á geðsviði Landspítalans telja nauðsynlegt að upplýsa stjórnvöld og almenning um það grafalvarlega ástand sem ríkir í geðþjónustu á Íslandi. Sú staða sem upp er komin felur í sér kerfisbundin brot á mannréttindum sjúklinga, réttindum þeirra til mannlegrar reisnar, persónuverndar og næðis.

Það er orðið dagleg viðfangsefni í starfi okkar á geðdeildum að glíma við öryggisógnir í tengslum við alvarlegt plássleysi og skort á starfsfólki. Þrátt fyrir það er mikilvægt að undirstrika með skýrum hætti að slíkar aðstæður geta aldrei talist eðlilegar á neinn hátt og eru alltaf óréttlætanleg brot á grundvallarréttindum sjúklinga.

Vegna skorts á viðeigandi meðferðarrýmum og starfsfólki hefur það gerst að sjúklingar eru vistaðir í herbergjum, sem standast varla staðla fortíðar – hvað þá nútíðar, jafnvel svo dögum og vikum skiptir. Sú staðreynd er grafalvarleg og ber vott um neyðarástand í heilbrigðiskerfinu. Einungis er að þakka frumkvæði og aðlögunarhæfni yfirmanna og starfsfólks geðsviðs að hægt hefur verið að sinna áfram bráðveikum sjúklingum en alls ekki öllum þeim sem til geðsviðsins leita. Staðan á geðdeildum landsins er nú sú að aðstæður stríða gegn grundvallarreglum um trúnað og rétt sjúklinga til einkalífs, eins og kveðið er um í íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að.

Geðlæknar á geðsviði líta ekki á núverandi ástand sem einstaka frávik á tímum hraða og álags heldur langvarandi kerfisbundinn vanda sem stjórnvöld verða að axla ábyrgð á. Aðstæður eru orðnar þannig að hvorki er möguleiki á að tryggja öryggi sjúklinga né tryggja virðingu og reisn þeirra sem leita sér bráðrar geðheilbrigðisþjónustu.

Geðlæknar á geðsviði vilja enn fremur taka skýrt fram að bráðamóttaka geðsviðs er öryggisventill geðheilbrigðiskerfisins og álagstoppar afhjúpa í raun mun stærra vandamál heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Umfjöllun í fjölmiðlum er því miður oft einskorðuð við birtingarmyndina í stað þess að líta á heildarmyndina. Það er kominn tími til að horfast í augu við vandamálið, það er ekki vandi geðsviðs, það er ekki vandi Landspítala, þetta er vandamál heilbrigðiskerfis sem er því miður komið að fótum fram og hefur ekki einu sinni svigrúm til að takast á við árstíðabundnar sveiflur.

Við hvetjum stjórnvöld til að bregðast tafarlaust við og tryggja að geðþjónusta á Íslandi uppfylli í hið minnsta lágmarksviðmið um mannréttindi, persónuvernd, öryggi og mannlega reisn. Þetta er ekki bara spurning um skipulag eða fjármögnun heldur um grundvallargildi samfélagsins og hvernig við komum fram við fólk í neyð.

Geðlæknar á geðsviði Landspítalans

Höfundur er framkvæmdastjóri Geðhjálpar.




Skoðun

Sjá meira


×