Bíó og sjónvarp

Bestu myndir Robs Reiner

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Rob Reiner hóf ferilinn á því að leika í sjónvarpi áður en hann settist í leikstjórnarstólinn og leikstýrði 22 myndum á um fjörutíu ára ferli. Hér má sjá þær bestu.
Rob Reiner hóf ferilinn á því að leika í sjónvarpi áður en hann settist í leikstjórnarstólinn og leikstýrði 22 myndum á um fjörutíu ára ferli. Hér má sjá þær bestu.

Kvikmyndaleikstjórinn Rob Reiner er allur en hann skilur þó eftir sig feykiöflugt höfundarverk og urmul góðra mynda. Reiner var ástríkur og hlýr húmoristi sem skilaði sér í myndum hans sem blönduðu áreynslulaust saman húmor við drama. Vísir hefur tekið saman bestu myndir leikstjórans hér að neðan.

Robert Norman Reiner fæddist 6. mars 1947 inn í fjölskyldu gyðinga, sonur söngkonunnar Estelle Reiner og grínistans Carls Reiner. Rob ólst upp í New York, fór í menntaskóla í Beverly Hills og lærði síðan kvikmyndagerð við UCLA.

Reiner hóf að vinna í sjónvarpi á sjöunda áratugnum sem fólst mestmegnis í smáhlutverkum. Í upphafi áttunda áratugarins var Reiner skipaður í hlutverk Michaels „Meathead“ Stivic í grínþáttunum All in the Family sem varð á árunum 1971 til 1978 einn vinsælasti grínþáttur Bandaríkjanna. Reiner fékk tvenn Emmy-verðlaun fyrir leik sinn og sömuleiðis festist Meathead-viðurnefnið og átti eftir að fylgja honum allar götur síðan.


This Is Spinal Tap (1984)

Eftir ágætan feril sem leikari sneri Reiner sér að leikstjórn og byrjaði sannarlega með látum með brautryðjandi háðsheimildarmyndinni (e. mockumentary) This Is Spinal Tap sem tók fyrir allar helstu klisjur slíkra mynda og hæddist óspart að rokkhljómsveitum.

Spinal Tap markaði spor í sandinn.

Myndin fjallar um heimildarmyndagerðarmanninn Martin „Marty“ sem er leikinn af sjálfum Reiner og er að gera heimildarmynd um Bandaríkjatúr ensku rokksveitarinnar Spinal Tap í tilefni af útgáfu nýrrar plötu þeirra, Smell the Glove. Hljómsveitin samanstendur af æskuvinunum David St. Hubbins (Michael McKean) og Nigel Tufnel (Christopher Guest) sem syngja og spila á gítar, bassaleikaranum Derek Smalls (Harry Shearer), hljómborðsleikaranum Viv Savage (David Kaff) og trommaranum Mick Shrimpton (R.J. Parnell).

Grínmyndin fékk frábærar viðtökur hjá gagnrýnendum en varð ekki eins vinsæl í bíóhúsum. Hins vegar gekk henni vel á VHS og myndaðist mikill költ-fylgjendahópur í kringum hana og hefur orðstír hennar vaxið síðan. Fjöldi brandara úr myndinni er enn notaður töluvert, þar má helst nefna þegar gítarleikarinn sýnir hvernig magnararnir hans fara upp í ellefu en ekki tíu (hljómar ekkert mjög fyndið þegar maður lýsir því svona).

Þó um háðsheimildarmynd væri að ræða virtist hún hafi snert taugar hjá einhverjum tónlistarmönnum. „Þegar ég fór að sjá hana, var ég eini maðurinn í salnum sem hló ekki... því þetta kom í alvöru fyrir mig,“ sagði Ozzy Osbourne um myndina í viðtali hjá Conan O'Brien.


Stand By Me (1986)

Eftir This Is Spinal Tap leikstýrði Reiner rómantísku-jóla-vegamyndinni The Sure Thing (1985) sem fjallar um tvo háskólanema (John Cusack og Daphne Zuniga) sem ferðast þvert yfir Bandaríkin í leit að ást. Myndin fékk góðar viðtökur hjá bæði gagnrýnendum og áhorfendum en það var hins vegar næsta mynd Reiner sem vakti alvöru athygli.

Uppvaxtardramað Stand By Me (1986) byggði á smásögunni „The Body“ eftir Stephen King sem fjallar um fjóra unga drengi sem leggja af stað í óvissuferð í leit að líki annars ungs drengs. Sjálf sagan er ansi góð og var myndin tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta handrit. 

Strákarnir fjórir í Stand By Me.

Stjörnur myndarinnar eru þó vafalaust ungu drengirnir fjórir. Wil Wheaton leikur hinn viðkvæma Gordie, River Phoenix er töffarinn Chris, Corey Feldman er vandræðagemsinn Teddy og Jerry O’Connell leikur hinn ljúfa Vern. Þar tekst Reiner að draga fram frábærar og náttúrulegar frammistöður úr drengjunum.

Sjálfur lýsti Reiner myndinni sem sinni uppáhalds. „Stand By Me hefur meiri þýðingu fyrir mig en nokkur önnur minna mynda,“ sagði hann um myndina við The Guardian árið 2021.


The Princess Bride (1987)

Fyrir utan mögulega Steven Spielberg er mér til efs að nokkur Hollywood-leikstjóri hafi átt jafn öflugan níunda áratug og Reiner. Ári eftir að hafa slegið í gegn með Stand By Me leikstýrði hann ævintýramyndinni The Princess Bride sem margir myndu flokka sem hans bestu mynd.

Fjöldi leikstjóra hafði reynt að aðlaga fantasíurómansinn The Princess Bride eftir rithöfundinn William Goldman að skjánum, þar má nefna leikstjórana Norman Jewison, Robert Redford og Francois Truffaut. Hins vegar var það Reiner sem hafði vinninginn og fyrsti leikarinn sem hann réði var vinur hans, Billy Crystal.

Cary Elwes og Robin Wright í hlutverkum sínum í The Princess Bride.

Sagan er rammasaga þar sem afi segir veiku barnabarni sínu söguna við litlar undirtektir. Þar segir frá bóndadrengnum Westley (Carey Elwes) sem gerist sjóræningi og þarf síðan að bjarga prinsessunni Buttercup (Robin Wright) frá hinum illa Prinsi Humperdinck (Chris Sarandon). Á leiðinni nýtur hann aðstoðar skylmingakappans Inigo Montoya (Mandy Patinkin) og risans Fezzik (Andre the Giant). 

Eins og alvöru ævintýramynd sæmir er hún uppfull af skylmingum, pyntingum, illmennum, kraftaverkum og kossaflensi. Hér birtist eitt helsta einkenni Reiner sem leikstjóra, að beita húmor til að afhjúpa alvöru.


When Harry Met Sally (1989)

Úr einni neglunni í aðra. Undir lok níunda áratugarins voru áhorfendur orðnir þreyttir á væmnum rómantískum gamanmyndum og því reyndist When Harry Met Sally sérstaklega kærkomin.

Ryan og Crystal voru óviðjafnanleg tvenna í When Harry Met Sally.

Geta karlar og konur verið vinir? Myndin sem byggir á handriti Noru Ephron, sem er eiginlega romcom-geitin, reynir að svara þeirri spurningu. Áhorfendur fylgjast með þeim Harry (Billy Crystal) og Sally (Meg Ryan) yfir tólf ára tímabil, frá því þau kynnast fyrst þar til leiðir skilja og svo aftur þegar þau endurnýja kynnin.

Reiner leyfir stjörnunum tveimur, Crystal og Ryan, að skína og þau eru sannarlega í miklum ham. Myndin hefur fest sig í sessi sem sígild rómantísk gamanmynd og frasinn „I’ll have what she’s having“ er orðinn hluti af almennu tungutaki. En þó húmorinn sé mikill er það líka rómantíkin sem heldur áhorfendum við efnið og þar fetar Reiner góðan milliveg.


Misery (1990)

Aftur gerði Reiner mynd upp úr sögu Stephen King og nú var það spennutryllir um rithöfundinn Paul Sheldon (James Caan) sem lendir í bílslysi og síðan í klóm aðdáanda síns, Annie Wilkes (Kathy Bates), sem reynist aðeins of mikill aðdáandi hans og meinar honum að fara.

Bates og Caan í Misery.

Reiner ákvað að skipa hina lítt þekktu Bates í hlutverk aðdáandans sem var mikið heillaskref því henni tekst fullkomlega að fanga ofsafenginn og sjúkan trylling Annie Wilkes. Fyrir frammistöðu sína hlaut Bates Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki.

Misery var sannarlega á undan sínum samtíma og spáði fyrir um aðdáanda-kúltúrinn sem hefur myndast í kringum stjörnur nútímans þar sem aðdáendur telja sig eiga þá sem þeir elska. Líkt og með aðrar myndir Reiner er að finna lúmskan húmor í Misery en það er óþægileg spennan sem ræður ríkjum.


A Few Good Men (1992)

Áfram hélt Reiner að dæla út slögurum og næst var það hernaðardómstólsdramað A Few Good Men með Tom Cruise, Jack Nicholson, Demi Moore, Kevin Bacon, Kiefer Sutherland og Cuba Gooding Jr. í aðalhlutverkum.

Cruise, Nicholson og Moore fara með aðalhlutverk.

Myndin hverfist í kringum mál sem varðar tvo landgönguliða sem er stefnt fyrir herrétt eftir að félagi þeirra í sjóhernum finnst myrtur. Stórkarlalegi lögfræðingurinn Kaffee (Tom Cruise) fær það verkefni að sanna að þeir hafi bara verið að fylgja skipunum yfirmanns síns, hershöfðingjans Jessep (Jack Nicholson).

Handrit myndarinnar var frumraun Aarons Sorkin í handritsgerð en hann átti síðan eftir að vinna aftur með Reiner við The American President (1995) og síðar slá í gegn með þáttunum The West Wing (1999-2006) og kvikmyndunum Social Network (2010), Moneyball (2011) og Steve Jobs (2015). Handritið byggði Sorkin á frásögn systur sinnar, lögfræðings sem hafði unnið við svipað mál í Guantanamo-flóa.

Reiner gerði hér það sama og oft áður: gaf leikurunum frelsi til að skína. Nicholson og Cruise etja kappi þar til allt sýður yfir um í einni frægustu senu kvikmyndasögunnar:  „You can't handle the truth.“


The Bucket List (2007)

Eftir þetta frábæra tíu ára tímabil þar sem hver bomban kom út á fætur annarri tók að halla aðeins undan fæti hjá Reiner. 

Næsta mynd hans var ævintýragrínmyndin North (1994) sem var algjört flopp. Hann bætti þó upp fyrir það með rómantíska gamandramanu The American President (1995) með Michael Douglas og Annette Bening í aðalhlutverkum. Hann endaði tíunda áratuginn svo á myndunum Ghosts of Mississippi (1996) og The Story of Us (1999).

Reiner hélt áfram svipuðum afköstum, leikstýrði mynd á tveggja til fjögurra ára fresrti. Eftir aldamótin 2000 fór lítið fyrir flestum mynda hans og síðasta áratuginn er ekki um auðugan garð að gresja. Hann endaði ferilinn síðan á því að loka hringnum, gerði framhaldið Spinal Tap II: The End Continues fyrr á þessu ári.

Til að hunsa ekki algjörlega þessa síðustu þrjá áratugi fékk gamanmyndin The Bucket List (2007) með Morgan Freeman og Jack Nicholson að fljóta með. Hér er ekki um neitt meistaraverk að ræða heldur skemmtilega grínmynd um tvo gamla karla sem greinast með krabbamein og ákveða að lifa lífinu til fulls á síðustu metrunum. Myndin sló í gegn hjá áhorfendum og sýndi að Reiner hafði enn góða tilfinningu fyrir gríni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.