Innlent

Sjúk­lingar ekki lengur í bíla­geymslu bráðamóttökunnar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Venjulega er sjúkrabílum ekið inn í þetta rými til að skila farþegum á bráðamóttöku. Rýmið var í gær nýtt til að einangra sjúklinga.
Venjulega er sjúkrabílum ekið inn í þetta rými til að skila farþegum á bráðamóttöku. Rýmið var í gær nýtt til að einangra sjúklinga. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Rafn Benediktsson, framkvæmdastjóri bráðamóttöku Landspítalans, segir stöðuna töluvert betri í dag en í gær þegar þurfti að vista sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku spítalans í bílageymslu spítalans. Hann segir alla þá 50 sem eru lagðir inn núna inni á deild og tuttugu á bið.

„Þetta er allt annað. Það tókst að losa um í gærkvöldi og þá gátum við tæmt bílageymsluna,“ segir hann og að um sé að ræða svæði þar sem sjúkrabílar koma inn til að losa farþega. 

Gott rými til að hópeinangra

Búið sé að loka rýminu og staðan sé góð í dag. Hann á von á því að rýmið verði nýtt aftur aukist aðflæði hratt aftur eins og gerðist í gær.

„Ef það eru margir með sömu veikina, þá er hægt að hópeinangrað þarna, við hliðina á bráðamóttökunni þar sem að inngangurinn. Hvaða kerfi sem er getur ekki tekið við hverju sem er. Þegar að verður allt í einu svona skyndiáhlaup verður að vera hægt að gera eitthvað og þetta er það sem við getum gert, til dæmis,“ segir Rafn.

Helga Rósa Másdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, gagnrýndi þessa ráðstöfun í viðtali við mbl.is fyrr í dag. Það væri illa hægt að tryggja varnir gegn sýkingum og persónuvernd. Rafn segir það rétt að erfitt sé að tryggja persónuvernd, en það sé þannig líka þegar fólk er á ganginum.

Hvað varðar það að tryggja varnir sé þetta besta leiðin til að tryggja varnir þegar 20 til 30 manns leiti til þeirra með sömu sýkinguna.

„Á bráðamóttökunni sjálfri er þetta stundum mjög erfitt þegar við erum með fullt af fólki á göngunum. En þetta er auðvitað bara raunveruleikinn að ef maður er með kannski 20-30 manns með sömu sýkinguna, þá er það bara ein einangrun eða ein sýking, og þá er þetta lógískt að gera þetta svona.“

Toppurinn á inflúensunni er hár og fjórum vikum fyrr á ferð en í fyrra. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Toppurinn fjórum vikum fyrr á ferð

Hann segir flesta með inflúensu sem leiti til þeirra og hún sé um fjórum vikum fyrr á ferðinni en í fyrra. Toppurinn sé hærri eða svipaður og hann var árin eftir Covid. Þá hafi toppurinn af inflúensunni komið seint þegar samgöngutakmörkunum var aflétt.

„Núna er þetta að gerast. Við erum með topp fjórum vikum fyrr og vitum ekki hvað hann verður hár ef þetta heldur áfram,“ segir hann og að staðan sé nánast sú sama upp á dag í Evrópu, til dæmis Bretlandi.

Hann segir grunnvandann að það séu of margir sem eru búnir með meðferð sem er ekki hægt að koma annað. Það bíði hjá þeim því það er ekki pláss annars staðar á spítalanum. Til að hópeinangra hafi þau ákveðið frekar að nota plássið í bílageymslunni.

Hann segir þau reyna að senda alla heim sem hægt er að senda heim og þess vegna hafi verið aukið viðbragð á bráðadagdeild. Hann segir þetta hafa verið gert í Covid og það sé í raun verið að gera það sama og þá.

Rafn segir stöðuna betri í dag en í gær en að rýmið verði notað aftur aukist aðflæði jafn hratt og í gær. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Erfið vika

Rafn segir vikuna hafa verið erfiða en staðan betri í kvöld. Í kringum klukkan 18 í kvöld hafi verið fimmtíu á deildinni og tuttugu á bið.

„Það ætti auðvitað að vera núll, þessi tuttugu, en síðustu vikurnar og mánuðina hefur þetta verið svona 30, 40,50. Þessi vika var erfið. Það voru yfir 200 sem leituðu á bráðamóttökuna á miðvikudaginn, 190 á fimmtudaginn og 194 í gær,“ segir hann og að meðaltalið yfir árið sé 180 á dag.

„Það er ekki nema tíu í viðbót og þá stoppar allt. Þetta er lítið fyrirbæri.“

Hann segir fólk á öllum aldri hjá þeim en börn séu á Barnaspítalanum.

„Þetta er fyrst og fremst eldra fólk og það eru vonbrigði hversu fáir hafa ákveðið að fara í bólusetningu,“ segir hann og að samkvæmt tölum landlæknisembættisins sé ekki nema rúmlega helmingur þeirra sem eru yfir 60 ára búinn að bólusetja sig við inflúensunni. Hann segir enn hægt að fá bólusetningu.


Tengdar fréttir

Allt að helmingur barna heima vegna veikinda

Allt að helmingur barna sem eru á leikskólum í borginni hefur verið fjarverandi síðustu vikur vegna veikinda. Leikskólastjóri segist ekki muna eftir öðru eins á rúmlega þrjátíu ára starfsferli.

Hvetja til bólu­setningar vegna inflúensu­far­aldurs

Heilbrigðisráðuneytið hvetur einstaklinga í áhættuhópum til að þiggja bólusetningu gegn inflúensu, þótt þeir hafi þegar veikst af inflúensu í haust eða vetur. Heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili eru hvött til að gera eigin ráðstafanir varðandi almennar sóttvarnir til að minnka smitdreifingu innan stofnunar á flensutímanum, svo sem varðandi heimsóknir, notkun andlitsgríma og handhreinsun.

Fólk hafi sam­band áður en það mæti á stappaða Lækna­vakt

Gunnlaugur Sigurjónsson, lækningaframkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, segir að þangað leiti um 250 til 300 manns á virkum dögum þessi misserin vegna inflúensufaraldurs. Læknavaktin hefur gripið til aðgerða vegna álags, og hvetur Gunnlaugur fólk til að hringja og hafa samband áður en það kemur svo hægt sé að meta hvort þörf sé á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×