Lífið

Svipt krúnunni eftir að hafa gert sig skáeygða

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sarah Dzafce sagðist fyrst hafa verið að nudda á sér gagnaugun vegna höfuðverks en gekkst síðan við hegðun sinni og baðst afsökunar.
Sarah Dzafce sagðist fyrst hafa verið að nudda á sér gagnaugun vegna höfuðverks en gekkst síðan við hegðun sinni og baðst afsökunar.

Sarah Dzafce sem var krýnd Ungfrú Finnland í september hefur verið svipt krúnunni í kjölfar rasískrar hegðunar þar sem hún gerði sig skáeygða til að líkja eftir Kínverjum. 

Finnska ríkisútvarpið Yle greinir frá þessum fregnum.

Sarah Dzafce var krýnd Ungfrú Finnland 6. september síðastliðinn og keppti í Ungfrú heimi í lok nóvember. Dzafce sem er 22 ára, býr í Kuopio og er af blönduðum bakgrunni, á kósovskan föður og finnska móður.

Myndin umrædda.

Eitthvað hefur frægðin stigið henni til höfuðs, eða hún afhjúpað sinn innri mann, því hún birti nýverið á samfélagsmiðlinum Jodel mynd af sér að herma á rasískan máta eftir Kínverjum. Á myndinni gerir Dzafce sig skáeygða með fingrunum og stendur þar fyrir neðan á finnsku „kiinalaisenkaa syömäs“ sem mætti þýða sem „borðað með Kínverja“.

Þótti ljóst að Dzafce væri þar að hæðast að asísku fólki en hún hafnaði því upphaflega. Sagðist hún hafa verið að nudda á sér gagnaugun og teygja á augunum vegna „mikils höfuðverks“.

Ungfrú Finnland gaf frá sér yfirlýsingu á miðvikudag og sagðist hvorki samþykkja rasisma né annars konar niðrandi hegðun. Í dag var síðan haldinn blaðamannafundur þar sem Dzafce var svipt titlinum og Tara Lehtonen, sem lenti í öðru sæti í keppninni í september, tók við krúnunni og titlinum Ungfrú Finnland. Dzafce bað alla þá sem hún særði afsökunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.