Innlent

Nýr vara­þing­maður stekkur inn í fjar­veru Guð­mundar Inga

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Varamaður tekur í dag sæti á Alþingi fyrir Guðmund Inga Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra.
Varamaður tekur í dag sæti á Alþingi fyrir Guðmund Inga Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Þóra Gunnlaug Briem tekur sæti sem varamaður á Alþingi í dag sem varaþingmaður Flokks fólksins í fjarveru Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra. Þóra Gunnlaug er 2. varamaður á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Samkvæmt dagskrá er gert ráð fyrir að Guðmundur Ingi verði til svara í óundirbúnum fyrirspurnartíma á fimmtudaginn, en nú er ljóst að ráðherrann er kominn í tímabundið veikindaleyfi.

Það var hiti í þingmönnum stjórnarandstöðunnar í síðustu viku þegar í ljós kom að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hafði verið tekinn af lista yfir ráðherra sem sitja áttu fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hugðust spyrja ráðherrann út í embættisfærslur hans í máli skólameistara Borgarholtsskóla, en í ljós kom að Guðmundur Ingi var þá á sjúkrahúsi vegna veikinda.

Í samtali við fréttastofu daginn eftir sagðist Guðmundur Ingi munu vera til svara í óundirbúnum fyrirspurnum á þinginu eftir helgi. Nú er kominn þriðjudagur og í tilkynningu á vef þingsins má sjá að varamaður hans tekur sæti í hans stað á Alþingi í dag. Óundirbúnar fyrirspurnir eru á dagskrá þingfundar í dag en þar verða til svara forsætisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra og innviðaráðherra. Samkvæmt dagskrá átti þingfundur í dag að hefjast á óundirbúnum fyrirspurnum, en þingforseti tilkynnti um breytingar á dagskrá við upphaf þingfundar þar sem gert er ráð fyrir að fyrirspurnartíminn færist til klukkan 13 í dag. 

Að óbreyttu er gert ráð fyrir að Guðmundur Ingi verði til svara í óundirbúnum fyrirspurnartíma á fimmtudaginn.

Forseti Alþingis tilkynnti um að varamaður komi inn í fjarveru Guðmundar Inga við upphaf þingfundar sem hófst klukkan 10:30. Þetta er í fyrsta sinn sem Þóra Gunnlaug tekur sæti á Alþingi, en hún tekur sæti nú þar sem fyrst varaþingmaður flokksins í kjördæminu, Grétar Mar Jónsson, boðaði forföll. Við upphaf þingfundar undirritaði Þóra Gunnlaug því drengskaparheit að stjórnarskránni. 

Uppfært klukkan 11:35

Eftir að fréttin fór í loftið hefur borist tilkynning frá Stjórnarráðinu um að Guðmundur Ingi sé kominn í tímabundið veikindaleyfi þar sem hann mun undirgangast hjartaaðgerð snemma á nýju ári. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra mun tímabundið gegna starfi mennta- og barnamálaráðherra á meðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×