Innlent

Tvö prósent vilja Heiðu sem borgar­stjóra

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur. vísir/Arnar

Einungis tvö prósent aðspurðra vilja að Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, verði næsti borgarstjóri samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Könnunin var opin og hlutfallslega flestir, eða um þriðjungur, sögðust óákveðnir.

Yfir sextíu nöfn rötuðu á blað en þegar litið er til þeirra sem oftast voru nefnd raða Sjálfstæðismenn sér í efstu sætin. Rétt rúmlega níu prósent vilja að Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gegni embættinu og tæplega níu prósent vilja Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann flokksins, sem hefur ekki útilokað framboð. Ákveði hann að stíga fram gæti því samkvæmt þessu stefnt í harða oddvitabaráttu milli þeirra. 

Könnun Maskínu fór fram frá 20. til 26. nóvembber og svarendur voru 1.034 talsins.vísir/sara

Þá vilja tæplega átta prósent að Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista verði næsti borgarstjóri en aðrir eru nokkur jafnir, töluvert neðar á listanum.

Tvö og hálft prósent vilja Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar, og jafn margir vilja að Dagur B. Eggertsson, sem nú situr á Alþingi fyrir Samfylkingu, snúi aftur. Þá vilja ríflega tvö prósent að Heiða gegni embættinu áfram en eitt og hálft prósent vilja að Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, fari aftur í borgarmálin og setjist í stól borgarstjóra.

Samkvæmt könnun Maskínu á fylgi flokkanna í borginni, sem fréttastofa greindi frá í vikunni, er núverandi meirihluti fallinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×