Íslenski boltinn

„Sagði bara við hann: Djöfulsins fíflið þitt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, var ekki glaður með Anton Ara Einarsson sem kom í veg fyrir að Eyjamenn kæmust í efri hluta Bestu deildar karla í sumar.
Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, var ekki glaður með Anton Ara Einarsson sem kom í veg fyrir að Eyjamenn kæmust í efri hluta Bestu deildar karla í sumar. Vísir/Diego

Þorlákur Árnason var einn gesta í Big Ben á Sýn Sport í gær þar sem hann ræddi meðal annars óvænta brottför sína frá Vestmannaeyjum í vikunni. Þorlákur sagði upp sem þjálfari karlaliðs ÍBV í fótbolta í fyrrakvöld.

Þorlákur náði frábærum árangri með Eyjaliðið í sumar og það var aðeins markatölu frá því að hafna í efri hluta deildarinnar. Eitt mark til hefði komið liðinu upp fyrir strik en markvarsla Antons Ara Einarssonar, markvarðar Breiðabliks, undir lok leiks gegn ÍBV í lokaumferðinni kom í veg fyrir sigur Eyjamanna og þar með sæti þeirra á meðal sex efstu.

Anton Ari er æskuvinur Gunnars Birgissonar, íþróttafréttamanns á RÚV, sem einnig var gestur í þætti gærkvöldsins.

Anton Ari varði vel í lok leiks við ÍBV í lokaumferð Bestu deildar karla fyrir uppskiptingu.Vísir/Hulda Margrét

Þorlákur átti orðaskipti við Anton Ara eftir vörsluna, líkt og hann sagði frá í þættinum.

„Anton Ari varði þarna á síðustu mínútu. Ég sagði við Anton, ég sagði bara við hann: Djöfulsins fíflið þitt,“ sagði Þorlákur léttur og uppskár mikinn hlátur.

Klippa: „Sagði bara við hann: Djöfulsins fíflið þitt“

Eyjamenn leita nú nýs þjálfara en veltan í þeirri stöðu hefur verið umtalsverð undanfarin ár, sem og leikmannaveltan.

„Eyjamenn eru svo seigir. Það er leikmannavelta á hverju einasta ári og er áfram núna. Það eru 8-10 leikmenn að fara núna. Þetta er ekki frábært,“ segir Þorlákur sem segir miður að hann hafi þurft að stíga frá borði.

„Mér líður ekki vel með þetta. Ég held það viti allir hvað mér þykir gríðarlega vænt um þetta félag og auðvitað það fólk sem er búið að vinna með manni. En þetta er bara eitthvað sem ég ákvað.“

Umræðuna má sjá í spilaranum.

Auk Gunnars og Þorláks var Guðmundur Guðmundsson, fyrrum landsliðsþjálfari í handbolta gestur í Big Ben í gær. Þáttinn má sjá í heild á Sýn+.

Big Ben er á dagskrá öll fimmtudagskvöld klukkan 22:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×