Handbolti

Gott ís­lenskt kvöld og Magdeburg taplaust á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var mjög öflugur í fyrri hálfleiknum i kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var mjög öflugur í fyrri hálfleiknum i kvöld. Getty/Ruben De La Rosa

Magdeburg hélt sigurgöngu sinni áfram í Meistaradeildinni í handbolta í kvöld með átta marka sigri á heimavelli sínum.

Magdeburg vann 40-32 sigur á ungverska félaginu PICK Szeged í Íslendingaslag. Íslensku landsliðsmennirnir voru áberandi hjá báðum liðum.

Magdeburg hefur unnið alla tíu leiki sína í Meistaradeildinni í vetur en Szeged er með fimm sigra í fjórða sæti riðilsins.

Szeged komst í 3-0 en Magdeburg komst fyrst yfir í 6-5 og leit ekki til baka eftir það. Þýska liðið var 19-13 yfir í hálfleik.

Þýsku Evrópumeistararnir voru síðan með öll tök á leiknum í seinni hálfleik.

Gísli Þorgeir Kristjánsson (5) og Ómar Ingi Magnússon (3) voru með átta af þessum nítján mörkum Magdeburg í fyrri hálfleiknum og Janus var með þrjú mörk í hálfleiknum.

Gísli og Ómar bættu við einu marki hvor í seinni hálfleik og skoruðu því tíu mörk saman en Janus Daði endaði með fjögur mörk í leiknum.

Gísli var einnig með þrjár stoðsendingar og átti því alls þátt í níu mörkum. Ómar Ingi gaf einnig þrjár stoðsendingar.

Íslensku mörkin voru alls sextán í kvöld því Elvar Örn Jónsson skoraði tvö fyrir Magdeburg. Elvar var einnig með tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×