Sport

„Það eru öll lið að vinna hvert annað“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir var öflug fyrir lið Keflavíkur í kvöld.
Sara Rún Hinriksdóttir var öflug fyrir lið Keflavíkur í kvöld. Vísir/Diego

Keflavík vann góðan átta stiga sigur á nágrönnum sínum úr Grindavík í kvöld þegar níunda umferð Bónus deild kvenna leið undir lok. Sara Rún Hinriksdóttir var öflug í liði Keflavíkur að vanda sem vann 95-103.

„Við erum mjög ólík lið og við vorum að reyna að keyra hraðann upp og þær voru að reyna setja upp en bara virkilega sátt með sigurinn í dag“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir eftir sigurinn í kvöld.

Keflavík náði upp góðu forskoti í þriðja leikhluta en hleyptu Grindavík inn í leikinn í fjórða sem náði að gera leikinn spennandi.

„Ekkert eitthvað eitt ákveðið. Við vorum kannski ekki að hitta úr skotunum okkar en við vorum að hitta rosalega vel í fyrri hálfleik og misstum af einhverjum sniðskotum sem við erum vön að setja. Grindavík er mjög gott lið með góða leikmenn“

Baráttan var það sem skilaði sigri Keflavíkur að mati Söru Rúnar.

„Baráttan í okkur. Við börðumst í 40 mínútur og ég er bara virkilega ánægð með mínar dömur“

Það er alltaf skemmtilegt að vinna nágranna slagi.

„Já ég myndi segja það. Það er gaman að koma hérna í Grindavík og spila á þessum velli. Það var flott stemning í húsinu og ég var bara ánægð með sigurinn“

Þrátt fyrir laskað lið Grindavíkur truflaði það ekki undirbúning Keflavíkur fyrir þennan leik.

„Nei alls ekki. Við undirbúum okkur alveg eins fyrir hvern leik. Við sáum bara hérna þegar við mættum í húsið hverjir væru að spila“

Þessi sigur var mikilvægur fyrir Keflavík en þær eru nú búnar að blanda sér í þéttan pakka við toppinn.

„Mér finnst bara hver leikur og hver sigur vera mikilvægur í þessari deild. Það eru öll lið að vinna hvert annað. Hver sigur er bara mjög mikilvægur“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×