Golf

Dáður en um­deildur kylfingur látinn

Sindri Sverrisson skrifar
Fuzzy Zoeller kunni tökin á golfkylfunum og vann tvö risamót á sínum ferli.
Fuzzy Zoeller kunni tökin á golfkylfunum og vann tvö risamót á sínum ferli. Getty/Logan Riely

Bandaríski kylfingurinn Fuzzy Zoeller, sem tvívegis fagnaði sigri á risamóti í golfi, er látinn, 74 ára að aldri. Rasísk ummæli hans varðandi Tiger Woods vörpuðu skugga á glæstan feril.

Zoeller var mikill húmoristi og afar vinsæll kylfingur á sínum tíma. Hann er sá síðasti sem afrekaði það að vinna Masters-mótið í fyrstu tilraun, þegar hann vann eftir þriggja manna bráðabana árið 1979.

Hann vann svo aftur risamót árið 1984 þegar hann hafði betur í bráðabana við Greg Norman á US Open. Þeir Norman höfðu glímt um sigurinn og hélt Zoeller að hann hefði tapað þegar Norman setti niður pútt á lokaholunni, og lyfti hvíta handklæðinu sínu eins og til að sýna að hann hefði gefist upp. En Norman hafði slegið einu höggi meira en Zoeller hélt og því kom á endanum til bráðabana.

Kveðja frá Trump

„Mjög leitt að heyra um hinn afar virta og elskaða atvinnukylfing, Fuzzyi Zoeller, sem nú er látinn,“ skrifaði Donald Trump, Bandaríkjaforseti og golfunnandi, á Truth Social og rifjaði upp söguna um hvíta handklæðið.

Eins og fyrr segir urðu rasísk ummæli Zoeller í garð Tiger Woods, á Masters-mótinu 1997, honum hins vegar til skammar og leiddu einnig til fjárhagslegs tjóns þar sem hann missti auglýsingasamninga í kjölfarið.

Ummælin sem skemmdu orðstírinn

Woods var þá að spila lokahringinn á leið sinni að tólf högga sigri en hefð er fyrir því að sigurvegari Masters velji svo matseðilinn fyrir hátíðarkvöldverð sem haldinn er tveimur dögum fyrir mót næsta árs. Zoeller sagði við fjölmiðla:

„Þið vitið hvað þið gerið þegar hann kemur hingað. Þið klappið honum á bakið og segið til hamingju og njóttu, og segið honum að bjóða ekki upp á steiktan kjúkling á næsta ár. Náðuð þið því?“

Zoeller var svo að labba í burtu þegar hann sneri sér við og bætti við: „Eða blaðkál [e. collard greens] eða hvað í fjandanum það er sem þeir bjóða upp á.“

Meira en viku síðar sendi Woods frá sér yfirlýsingu og sagði ljóst að „engin persónuleg óvild í hans garð hefði verið ætlunin“. Skaðinn reyndist hins vegar skeður og orðstír Zoeller beið mikinn hnekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×