Skoðun

Stað­reyndir um fast­eigna­gjöld í Reykja­nes­bæ

Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon, Sigurrós Antonsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Helga María Finnbjörnsdóttir skrifa

Á árinu 2026 mun fasteignamat íbúða (A-skattur) hækka að meðaltali um 9,2% fyrir landið en 12,3% í Reykjanesbæ. Hækkun fasteignamats atvinnuhúsnæðis (C-skattur) verður að meðaltali 5,4% fyrir landið en 10,5% í Reykjanesbæ.

Það er miður að sjá svona miklar hækkanir á fasteignamatinu milli ára, en hækkanirnar koma frá útreikningum HMS vegna breytinga á húsnæðismarkaði, eins og vegna fjölgunar á húsnæði og hækkun á virði fasteigna. Það má alveg deila um þessa aðferðafræði en hækkun á fasteignamati er ekki ákvörðun sveitarfélaga og hér eru sveitarfélögin ekki að „hækka skatta“, það er einfaldlega rangt. Húsnæðismarkaðurinn leiðir af sér hækkunina.

Sveitarfélög geta þó komist til móts við íbúa og haft áhrif á hversu mikið íbúar greiða með því að minnka álagningarhlutfall fasteignaskattsins. Það hefur meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar gert undanfarin átta ár þar sem við höfum lækkað álagningarhlutfall (A-skatts) úr 0,36% í 0,25% og álagningarhlutfall á atvinnuhúsnæði (C-skatts) úr 1,65% í 1,45%.

Samhliða þessum aðgerðum minnka tekjur til bæjarsjóðs sem þýðir að við getum framkvæmt minna. Þetta er ákvörðun bæjaryfirvalda hverju sinni.

Fyrir fjárhagsáætlunarvinnu 2026 kaus meirihluti bæjarstjórnar að skoða vandlega hvaða svigrúm væri til lækkunar á álagningarhlutfallinu án þess að það myndi bitna á rekstri sveitarfélagsins. Það er ábyrg fjármálastjórnun, sérstaklega í ljósi þess að tekjur Reykjanesbæjar eru 13% lægri en meðaltal sjö stærstu sveitarfélaganna.

Við í meirihlutanum teljum þó mjög mikilvægt að koma til móts við íbúa Reykjanesbæjar vegna þeirrar miklu hækkunar sem er á fasteignamatinu milli ára og munum því lækka álagningarhlutfall A-skatts enn frekar, úr 0,25% í 0,23%. C-skattur atvinnuhúsnæðis helst óbreyttur í 1,45%.

Til samanburðar ef við horfum til annarra sveitarfélaga árið 2025:

Reykjanesbær er með þessum breytingum að lækka A-skattinn til móts við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Reykjanesbær mun ekki lækka álagningarhlutfall á C-skatti en sveitarfélagið er með lægra hlutfall en önnur sambærileg sveitarfélög, fyrir utan Hafnarfjörð.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbær er því að draga úr álögum á íbúa eins og hægt er, líkt og hefur verið gert undanfarin kjörtímabil. Allt tal um annað er einfaldlega að slá ryki í augu íbúa.

Höfundar mynda meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar - Samfylking, Framsókn og Bein leið. Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon, Sigurrós Antonsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Helga María Finnbjörnsdóttir.




Skoðun

Skoðun

Skelin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×