Erlent

Leið­togi í hreyfingu Charlie Kirk játar kosninga­svik

Kjartan Kjartansson skrifar
Charlie Kirk stofnaði samtökin Turning Point USA. Líkt og aðrir stuðningsmenn Donalds Trump varð honum tíðrætt um meint kosningasvik í forsetakosningunum árið 2020. Einn stjórnenda hreyfingar hans hefur nú játað sig sekan um svik í forvali Repúblikanaflokksins í Arizona í fyrra.
Charlie Kirk stofnaði samtökin Turning Point USA. Líkt og aðrir stuðningsmenn Donalds Trump varð honum tíðrætt um meint kosningasvik í forsetakosningunum árið 2020. Einn stjórnenda hreyfingar hans hefur nú játað sig sekan um svik í forvali Repúblikanaflokksins í Arizona í fyrra. AP/John Locher

Fyrrverandi ríkisþingmaður Repúblikanaflokksins í Arizona og leiðtogi í hreyfingu Charlie Kirk játaði sig sekan um að falsa undirskriftir til stuðnings framboðs síns í fyrra. Hann hafði verið virkur talsmaður stoðlausra samsæriskenninga um meint kosningasvik í forsetakosningunum árið 2020.

Austin Smith, eitt forsvarsmanna Turning Point Action, undirdeildar Turning Point USA sem Charlie Kirk stofnaði, gekkst við því í síðustu viku að hafa sjálfur falsað rúmlega hundrað undirskriftir í tengslum við framboð sitt í forvali Repúblikanaflokksins í fyrra. Hann hafði áður lýst ásökunum um slíkt sem „út í hött“.

Dómsmálaráðherra Arizona sagði Smith meðal annars hafa játað að falsa undirskrift látinnar konu og vísvitandi reynt að blekkja ríkisyfirvöld með því að leggja fram falsaðar undirskriftir framboði sínu til stuðnings.

Staðarfjölmiðillinn AZ Mirror segir að þegar Smith framdi brotin hafi hann stýrt stefnumótun Turning Point Action. Það eru samtök sem eiga að virkja ungt hægrifólk. Kirk, sem var ráðinn af dögum í Utah í september, stofnaði samtökin. Hann er sagður mögulega starfsmaður samtakanna enn þann dag í dag.

Smith virðist ekki hafa lagt mikinn metnað í falsanir sínar. Undirskriftirnar sem hann falsaði voru flestar með sömu rithöndinni.Úr ákærunni á hendur Austin Smith

Þá tilheyrði Smith svonefndum frelsisþingflokki Arizona. Það er hópur harðlinurepúblikana sem hélt meðal annars mjög á lofti staðlausum ásökunum Donalds Trump um að stórfelld kosningasvik hefur kostað hann endurkjör í forsetakosningunum árið 2020.

Smith er sagður sleppa nokkuð vel. Hann gerði sátt við saksóknara til þess að komast hjá þyngri refsingu fyrir brot sín. Hann þarf að greiða sekt og verður á skilorði. Þá verður honum bannað að bjóða sig fram til opinbers embættis í fimm ár.

Hefði Smith aftur á móti verið sóttur til saka eftir ítrasta bókstaf laganna hefði hann átt á hættu að hljóta refsidóm og verið sviptur bæði kjörgengi og kosningarétti. Sækja þarf um til dómara að fá slík réttindi til baka hljóti menn refsidóm í Arizona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×