Erlent

„Út­vötnuð“ loftslagsályktun sam­þykkt eftir harðar deilur

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
APTOPIX Climate COP30 André Corrêa do Lago, forseti ráðstefnunnar fyrir miðju, Simon Stiell forseti Loftslagsstofnun SÞ til hægri ræðir við embættismenn.
APTOPIX Climate COP30 André Corrêa do Lago, forseti ráðstefnunnar fyrir miðju, Simon Stiell forseti Loftslagsstofnun SÞ til hægri ræðir við embættismenn. AP

Samþykkt náðist um lokaályktun loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu eftir mikla málamiðlun. Orðalag ályktunarinnar er umdeild enda er þar hvergi kveðið á um að draga þurfi úr notkun jarðefnaeldsneytis.

COP30-loftslagsráðstefnunni í Belém í Brasilíu lauk í gær eftir samningaviðræður sem drógust inn í helgina. Til stóð að ráðstefnunni lyki á föstudag en tafir eru alsíða á ráðstefnum sem þessum. Segja má að ráðstefnan hafi farið illa af stað enda neituðu Bandaríkjamenn að senda sendinefnd á ráðstefnuna. Miðlar um allan heim hafa sagt ályktunina útvatnaða og þaðan af verra en ljóst er að hart var tekist á til að ná þjóðum heimsins saman.

Þrefaldar fjárveitingar til þróunarríkja

Í ályktuninni er kveðið á um að ríkar þjóðir þrefaldi fjárveitingar sinnar til þróunarlanda sem eru háðari jarðefnaeldsneytum og sömuleiðis berskjaldaðri fyrir áhrifum hlýnandi heims. Samkvæmt umfjöllun Reuters var orðalag ákvæðis um útfösun jarðefnaeldsneyta helsta bitbein ráðstefnunnar og tókust þar aðildarríki Evrópusambandsins og Arabalönd á. Reynt var að ná sáttum um orðalagið fram á rauða nótt aðfaranótt laugardags en án árangurs.

Líkt og greint hefur verið frá skrifuðu að minnsta kosti 29 ríki undir harðort bréf til Brasilíumanna þar sem krafist var að ályktunin tæki til orkuskipta frá jarðefnaeldsneyti. Ísland var á meðal þessara ríkja.

Brasilíska nefndin er sögð hafa fjarlægt tilvísanir í jarðefnaeldsneyti undir þrýstingi frá olíuríkjum eins og Sádi-Arabíu og Rússlandi ásamt Indlandi sem brennir miklu magni jarðefnaeldsneytis. Fulltrúar þeirra hafi hótað að ganga út fengju þau ekki vilja sínum fram í gær.

Jarðefnaeldsneytisákvæði í „hliðartexta“

Í gærmorgun tilkynnti Andre Corrêa do Lago, forseti ráðstefnunnar, að hliðartexti líkt og hann kallaði hann yrði gefinn út samhliða lokaályktun ráðstefnunnar þar sem ákvæði væri að finna um útfösun jarðefnaeldsneyta og skógarvernd. Ekki var unnt að hafa þau ákvæði í aðaltextanum vegna þess að ekki náðist sammæli um þau.

Forstjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna kvaðst átta sig á því að orðalag ályktunarinnar ylli mörgum vonbrigðum.

„Ég er ekki að segja að við séum að sigrast á loftslagsvánni. En við erum óneitanlega enn í baráttunni og við erum að spyrna við,“ sagði Simon Stiell, forseti Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu að ráðstefnunni lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×