Sport

„Ég krossa fingur og vona að þetta verði í síðasta skiptið í bili“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var ekki þægilegt fyrir Söru Sigmundsdóttur að láta sprauta stofnfrumum inn í hnéð sitt.
Það var ekki þægilegt fyrir Söru Sigmundsdóttur að láta sprauta stofnfrumum inn í hnéð sitt. @sarasigmunds

Íslenska CrossFit-konan Sara Sigmundsdóttir lifir enn í voninni um að skilja meiðslin eftir í baksýnisspeglinum og er nú í sérstakri meðferð hjá læknum í Dúbaí.

Sara sleit krossband í hægra hné aðeins tveimur dögum fyrir 2021 tímabilið, tímabil þar sem Sara hafði alla burði til að keppa um heimsmeistaratitilinn. Hún hafði sett sjálf stefnuna á verðlaunapall en varð þarna fyrir miklu áfalli.

Erfið endurkoma

Það er ekki bara að hún missti af öllu þessu tímabili heldur hefur endurkoman verið erfið og ítrekuð meiðsli komið í veg fyrir að hún komist aftur á sama stað og hún var á.

Þeir sem þekkja Söru vita að það síðasta í stöðunni hjá henni er að gefast upp. Þrátt fyrir hvert mótlætið á fætur öðru hefur hún haldið áfram baráttu sinni um að komast aftur í hóp þeirra bestu í CrossFit-heiminum.

Það styttist í nýtt tímabil og Sara ætlar að nýta sér nýjustu læknatæknina til að gera skrokkinn kláran. Eins og áður leyfir hún fylgjendum sínum að fylgjast með, bæði á Instagram sem og í reglulegum þáttum sínum á Youtube.

Sara var mætt í meðferð á læknamiðstöð í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem hún býr þessa stundina.

Annað skref fram á við

„Annað skref fram á við í þessu bataferli. Stofnfrumumeðferð hélt áfram hjá einum þeirra bestu, doktor Adeel Khan, doktor Saeed Shalmani og frábæra teyminu þeirra,“ skrifaði Sara á samfélagsmiðla sína.

Það má sjá læknana sprauta stofnfrumum í veika hnéð og augljóst á myndunum sem fylgja að þetta var nú ekki alveg sársaukalaust. Læknarnir nota stóra og mikla sprautu og fylgjast jafnóðum með árangri sínum í ómtæki.

Stofnfrumur eru náttúrulegir græðarar hans en þær endurnýja stöðugt aðrar frumur. Ólíkt öðrum frumum hafa stofnfrumur þann einstæða eiginleika að geta orðið að ólíkum frumum, þar á meðal brjóskfrumum sem nauðsynlegar eru til að lagfæra liði í hnénu. Þeim er sprautað inn í hnéð með samþjöppuðum blóðflöguríkum blóðvökva og svo er að vona það besta.

Mjög óþægilegt

Eins og sést á myndunum þá er þetta mjög óþægilegt ferli en okkar kona er tilbúin að sigrast á smá sársauka ef þetta gæti þýtt betra hné fyrir komandi átök.

„Ég er svo þakklát fyrir að geta haldið þessari reynslu áfram hér í Dúbaí, mínu öðru heimili,“ skrifaði Sara.

„Ég krossa fingur og vona að þetta verði í síðasta skiptið í bili og að ég geti byrjað að undirbúa mig almennilega fyrir tímabilið eftir tvær vikur,“ skrifaði Sara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×