Körfubolti

„Búnir að tala mikið um það að ná vörninni upp“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari ÍA
Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari ÍA Jón Gautur

Þjálfari ÍA var að vonum ánægður með sjö stiga sigur sinna manna gegn ÍR í Bónus deild karla í kvöld, 96-89. Leikið var í AvAir höllinni á Akranesi og sigur kvöldsins var sá fyrsti hjá ÍA á nýjum heimavelli.

„Þetta var mjög flottur leikur hjá okkur, sérstaklega fyrri hálfleikur. Búnir að tala mikið um það að ná vörninni upp á næsta level og mér fannst strákarnir standa vel undir því í dag. Við erum alltaf glaðir þegar lið skjóta 1/10 eða 1/15 í fyrri hálfleik eða hvað það endaði í. Það var frábært,“ sagði Óskar Þór.

Skagamenn tefldu fram nýjum bandarískum leikmanni, Dibaji Walker, sem þeir fengu frá Ármanni. Hann kom vel inn í liðið og mikil ánægja með hann.

„Já, frábær. Hann kemur inn með kraft og gefur okkur hreyfanleika sem við höfðum ekki áður. Hann getur verið að skipta og um tíma vorum við með hann á Falko sem gekk vel. Við getum gert margt með hann sérstaklega varnarlega,“ sagði Óskar um nýja manninn.

Óskarvar nokkuð djarfur undir lokin en hann spilaði síðustu þrjár mínútur leiksins með allan bekkinn inná. Ungir skagamenn undir handleiðslu Kristófers Gíslasonar.

„Þessir strákar geta klárlega tekið við keflinu, þessvegna er ég að spila þeim. Ég var kannski full fljótur að setja þá alla inná því við erum ekki með marga sem eru góðir á boltann í þessu liði en það er eitthvað sem ég sem þjálfari þarf að læra líka,“ sagði Óskar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×