Körfubolti

Ný­vaknaður úr dái en verður fyrir­liði gegn Ís­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Líf Achille Polonara hefur tekið skörpum breytingum síðastliðið ár.
Líf Achille Polonara hefur tekið skörpum breytingum síðastliðið ár. getty / @ilpupazzo33

Ítalski landsliðsþjálfarinn í körfubolta, Luca Banchi, hefur tilkynnt sautján manna leikmannahóp fyrir landsleikina gegn Íslandi og Litaén í lok mánaðar en aðeins sextán leikmenn munu spila. Fyrirliði liðsins er með hvítblæði og nývaknaður úr dái.

Achille Polonara hefur ekki spilað landsleik síðan í febrúar 2024 en hann greindist með hvítblæði í fyrra og hefur verið í meðferð við veikindunum síðan þá.

Fyrir rúmum mánuði fór hann í beinmergsskipti og í kjölfar aðgerðarinnar lá hann í tveggja vikna dái, en sneri svo aftur heim í hlýjan faðm fjölskyldunnar í síðustu viku, eftir margra mánaða spítaladvöl.

Polonara var svo valinn í landsliðshóp Ítalíu sem var tilkynntur í dag og verður fyrirliði liðsins í leikjunum gegn Íslandi og Litáen, þó hann muni auðvitað ekki geta hjálpað liðinu innan vallar vegna veikindanna.

Hlutverk hans verður utan vallar, sem leiðtogi og milliliður fyrir þjálfarateymið en Polonara er einn reynslumesti landsliðsmaður Ítalíu með 94 landsleiki að baki.

Hann mun eflaust koma til með að hjálpa nýliðunum í hópnum mikið, þeim Luigi Suigo, Diego Garavaglia og Luca Vincini.

Landsliðshópur Ítalíu

  • Stefano Tonut
  • Amedeo Della Valle
  • Amedeo Tessitori
  • Gabriele Procida
  • Diego Garavaglia
  • Francesco Ferrari
  • Thomas Baldasso
  • Luigi Suigo
  • Leonardo Candi
  • Davide Casarin
  • Achille Polonara
  • Matthew Librizzi
  • Richard Rossato
  • Sasha Grant
  • Nicola Akele
  • Luca Vincini
  • John Petrucelli

Ítalski landsliðshópurinn kemur saman til æfinga þann 24. nóvember næstkomandi og tekur svo á móti Íslandi í fyrsta leik undankeppni HM þann 28. nóvember. Ítalir mæta svo Litáen á meðan Ísland tekur á móti Bretlandi þann 30. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×