Lífið

Hefði getað blindast ef æxlið hefði ekki upp­götvast

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Böðvar Tandri ræddi við Sölva um hitt og þetta, næringu, heilaæxli og hreyfingu.
Böðvar Tandri ræddi við Sölva um hitt og þetta, næringu, heilaæxli og hreyfingu.

Böðvar Tandri Reynisson, næringarfræðingur og þjálfari, segir að sýn hans á lífið hafi breyst eftir að hann greindist óvænt með heilaæxli í kjölfar undarlegrar hegðunar í trampólíngarði.

Böðvar er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Hann ræðir þar um næringu, vinsæla kúra, ráðleggingar yfirvalda og reynsluna af því að uppgötva skyndilega að hann væri með heilaæxli aðeins 21 árs gamall.

„Þennan dag var ég í trampólíngarðinum Rush í Kópavogi með fyrrverandi kærustunni minni. Allt í einu var ég bara stjarfur og mundi ekki neitt og varð bara mjög skrýtinn. Það var eins og ég hefði aldrei séð umhverfið mitt áður og vissi ekki hvar ég var, eða hvaða dagur var. Hún hélt að ég hefði fengið vægan heilahristing, en svo hélt ég bara áfram að endurtaka mig og verða skrýtnari og skrýtnari,“ segir hann um daginn örlagaríka.

„Allt eins líklegt að ég hefði ekki sjónina í dag“

Á leiðinni út vissi Reynir ekki hvar skórnir sínir væru eða útgangurinn. Þegar þau komu heim var ákveðið að fara með Böðvar upp á sjúkrahús. Þar töldu læknarnir fyrst að hann væri að upplifa tímabundið skammtímaminnisleysi.

Böðvar Tandri minnir fólk á að taka ekki heilsunni sem sjálfsögðum hlut.Aðsend

„Það átti að senda mig heim og mér var sagt að það væri í raun ekkert hægt að gera annað en að bíða þetta af sér og að yfirleitt lagaðist þetta af sjálfu sér. En annað hvort pabbi eða fyrrverandi kærastan mín þekktu konuna sem var þarna með okkur og báðu um að það yrði tekin mynd af heilanum í mér,“ segir hann.

Böðvar fór í segulómskoðun og kom í ljós að það væri hnútur í einu hólfi heilans sem hafði stíflað flæði mænuvökva um hólfið.

„Þannig að hólfið var orðið fáránlega stórt. Það var orðinn svo mikill þrýstingur á sjóntaugina að ég hefði hæglega getað orðið blindur ef það hefði ekki verið gripið inn í þarna strax. Ef ég hefði farið heim og ekki í þessa myndatöku er allt eins líklegt að ég hefði ekki sjónina í dag. En þarna var mér bara sagt að ég væri að fara í heilaaðgerð strax daginn eftir,“ segir Böðvar.

Ótti við að krukkað sé í heilanum

„Mér var semsagt greint frá því að það þyrfti að búa til hjáleið til þess að minnka þrýstinginn í höfðinu og það var ákveðið áfall að átta mig á því að ég væri að fara í heilaskurðaðgerð. Bæði af því að það er mikið inngrip og svo kemur bara ótti yfir því að það eigi að fara að krukka í heilanum á manni,“ segir hann.

Böðvar lyftir reglulega lóðum.

„Ég var látinn skrifa undir eitthvað plagg um að ég bæri ábyrgð á því sjálfur ef eitthvað kæmi fyrir og auðvitað fer maður að hugsa það versta.“

Aðgerðin fór þó vel en tíminn þar á eftir var erfiður.

„Ég mátti ekkert reyna á mig í vikurnar á eftir, en ég fann svo mikið þakklæti yfir því að vera lifandi, hafa sjón og að líkami minn gæti jafnað sig. Almennt séð breytti þetta atvik og þessi tími lífssýn minni, en svo nær maður auðvitað aftur „baseline“ og þá snýst þetta um að gleyma ekki þakklætinu. Ég fékk algjörlega nýja sýn á það hvað hlutirnir geta verið brothættir.“

Böðvar sagði Sindra Sindrasyni söguna í Íslandi í dag fyrir sex árum síðan. Hægt er að horfa á þáttinn hér að neðan:

Fólk fari óhefðbundnar leiðir þegar kerfið bregst

Böðvar er næringafræðingur og þjálfari og hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum þar sem hann talar um næringu, heilsu og hverju á að trúa þegar kemur að mataræði.

„Það er örugglega algengt að fólk fari í óhefðbundnari áttir þegar kemur að heilsu og næringu af því að það hefur verið í vandræðum með heilsuna og hefur ekki fundið neinar lausnir í kerfinu eða hjá sérfræðingum. Hvort sem það er að jarðtengja daglega, vera á „carnivore“ mataræði eða aðrar leiðir sem myndu kallast óhefðbundnar. Svo ef að fólki líður betur eftir að hafa farið þessar leiðir hefur það kannski ákveðið að treysta ekki læknum eða sérfræðingum,“ segir hann.

Það sé ákveðin einföldun að mati Böðvars.

„Þó að eitthvað virki fyrir þig er ekki víst að það virki fyrir aðra. Og þegar það er verið að mæla með hlutum út frá rannsóknum, þá er það oftast vegna þess að það virkar fyrir flesta. En það þýðir ekki endilega að það virki fyrir alla. Svo getur fólk líka verið óheppið með að það hafi einfaldlega hitt rangan sérfræðing sem gaf ekki bestu ráðin,“ segir Böðvar.

Fékk hroll í faraldrinum

Margir haldi að Böðvar sé alltaf talsmaður opinberra ráðlegginga en það sé ekki þannig. 

„Auðvitað verður maður alltaf að horfa á hlutina með gagnrýnum augum. Ég fékk til dæmis alveg hroll í Covid-faraldrinum yfir því að vita að einhver væri að græða á því að búa til bóluefni sem ríkisstjórnin var að skipa fólki að fara í,“ segir hann.

„En svo hugsaði maður líka: „Hvernig eigum við að gera þetta öðruvísi.“ Markaðsöflin ráða auðvitað miklu og það hefði líklega ekki virkað að ætlast til að einhver myndi gera þetta í sjálfboðavinnu. Almennt séð vil ég treysta vísindum og að læknar og aðrir sérfræðingar í sínu fagi séu að gera sitt besta af heilindum. Alveg eins og að ég treysti flugstjóra þegar ég fer upp í flugvél.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.