Innlent

Lög­regla leysti upp unglingapartý í Ár­bæ

Lovísa Arnardóttir skrifar
Lögreglan rannsakaði innbrot og stöðvaði unglingapartý í Árbæ.
Lögreglan rannsakaði innbrot og stöðvaði unglingapartý í Árbæ. Vísir/Arnar

Þrír voru handteknir í miðborg Reykjavíkur í nótt. Einn fyrir að vera með hníf, annar fyrir að hafa verið til vandræða fyrir utan skemmtistað samkvæmt dagbók lögreglu og sá þriðji fyrir slagsmál. Seinni tveimur var sleppt úr haldi eftir að tekin var af þeim skýrsla. Einn gisti í fangageymslu í nótt en alls voru skráð 79 mál hjá lögreglunni frá klukkan 17 í gær til fimm í morgun.

Lögreglan leysti einnig upp unglingapartý í Árbæ í gærkvöldi og fór í verslun í sama hverfi vegna innbrots. Samkvæmt dagbók lögreglu var „mjög litlu stolið“.

Þá sinnti lögregla einnig fjölda verkefna vegna ölvunar fólks og stöðvaði til dæmis ölvaðan ökumann sem fór yfir á rauðu ljósi í Breiðholti og annan undir áhrifum vímuefna í Hafnarfirði. Lögreglan aðstoðaði einnig einn sem féll á rafmagnshlaupahjóli og slasaði sig í Grafarvogi.

Í Kópavogi stöðvaði lögreglan ökumann sem reyndist vera 16 ára og ekki kominn með ökuréttindi. Vinur hans var með í bílnum. Báðir voru þeir fluttir á lögreglustöð og hringt í foreldra sem sóttu þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×