Skoðun

Nýjar lóðir í betri og bjartari borg

Einar Sveinbjörn Guðmundsson skrifar

Í landi langvarandi skammdegis yfir vetrarmánuðina skiptir miklu máli að þétting byggðar skerði ekki birtu og lífsgæði íbúanna. Á tiltölulega skömmum tíma hefur mikil þétting átt sér stað miðsvæðis í Reykjavík. Margt af því sem gert hefur verið bætir borgina og nýtir vel það rými og innviði sem fyrir eru.

Þrátt fyrir góðan ásetning hefur þétting byggðar sum staðar gengið of langt. Skuggavarp hefur orðið of mikið með neikvæðum afleiðingum á lífsgæði íbúa. Hljóðvist hefur einnig verið ábótavant í sumum tilvikum. Það er mikilvægt að læra af reynslunni og byggja á því sem vel hefur tekist.

Ný borgarhönnunarstefna

Ný borgarhönnunarstefna Reykjavíkurborgar sem samþykkt var hinn 12. nóvember markar tímamót í þessu ferli. Stefnan er faglega unnin og setur skýrari ramma um sjálfbæra uppbyggingu, gæði byggðar og borgarrými sem endurspegla fjölbreytileika borgarinnar allt frá Skerjafirði upp á Kjalarnes.

Lykilatriðið er að skipulag og hönnun borgarinnar verði á forsendum íbúanna. Þótt aldrei sé hægt að gera öllum til geðs er mikilvægt að markmið Reykjavíkurborgar sé að gera enn betur. Stuðla þannig að því að sem flestir borgarbúar geti verið sáttir og stoltir af sínu hverfi og borginni í heild.

Mörg þúsund nýjar íbúðir!

Eftir að Flokkur fólksins tók þátt í myndun nýs meirihluta í Reykjavík hefur hann ásamt samstarfsflokkum ákveðið að brjóta land undir allt að tíu þúsund íbúðir í Úlfarsárdal. Þessar áætlanir kallast vel á við aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Strax á næsta ári gætu framkvæmdir hafist við uppbyggingu allt að fjögur þúsund íbúða í Úlfarsárdal. Þessi uppbygging færi fram samkvæmt nýrri aðferðarfræði á vegum nýs innviðafélags í samstarfi borgarinnar, lífeyrissjóða og verkalýðshreyfingar.

Ný borgarhönnunarstefna verður lykilverkfæri í þessari uppbyggingu. Hún á að tryggja birtuflæði, hljóðvist og alla aðra þætti sem skipta máli fyrir mannvænt og gott samfélag. Við ætlum ekki bara að byggja meira heldur betur.

Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Flokks fólksins og fulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar




Skoðun

Sjá meira


×