Innlent

Greindur af gervi­greind og greiðir fyrir að­gerðina sjálfur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Tomasz er á leið til Póllands í aðgerð sem hann þarf að greiða sjálfur.
Tomasz er á leið til Póllands í aðgerð sem hann þarf að greiða sjálfur. Bylgjan

Tomasz Bereza er ósáttur við það að Sjúkratryggingar Íslands taki ekki þátt í að greiða aðgerð sem hann ætlar að fara í vegna rofs á hljóðhilmu og heilahimnubólgu fyrir um þremur árum. Háls-, nef- og eyrnalæknir á Íslandi er ekki sannfærður um að aðgerðin geri gagn og vill ekki framkvæma aðgerðina. Tomasz ætlar því til Póllands og greiðir fyrir aðgerðina sjálfur.

Tomasz segir að um tveimur til þremur dögum eftir að hann fékk eyrnabólguna í desember 2022 hafi honum byrjað að blæða úr eyra.

„Ég var með mjög mikinn hausverk og alveg dofinn,“ segir hann og að hann hafi verið rúmliggjandi og verulega verkjaður. Tómas fór yfir málið í Bítinu á Bylgjunni.

Tomasz hefur búið á Íslandi í þrettán ár, á þrjú börn og er giftur íslenskri konu. Hann á enn fjölskyldu í Póllandi en segist eiga lítið eftir þar nema fjölskyldu.

„Þetta gerðist allt mjög hratt. Verkurinn var ekki lengur í eyranu á honum heldur aftan á hausnum, hann varð stífur í hausnum og hálsinum og fékk nístandi verki,“ sagði Karen Bereza, eiginkona Tomaszar, í viðtali við Vísi á þeim tíma og að hún hafi ákveðið að hringja á sjúkrabíl.

Þar var hann skoðaður af lækni og beðinn að koma daginn eftir í skoðun á háls-, nef- og eyrnadeild. Hann var sendur heim með verkjalyf sem gerðu ekki mikið gagn. Þegar hann kom heim ákváðu hann og konan hans samt að athuga með læknavaktina og enda fór hann þangað. Þar voru gerðar frekari rannsóknir á honum og bentu niðurstöður til sýkingar. Læknirinn sendi hann svo rakleiðis aftur á bráðamóttökuna og hringdi á undan honum.

Hann segir lækninn á bráðamóttökunni hafa verið undrandi að sjá hann aftur en það hafi svo verið tekið við honum og hann fengið lyf og aðstoð. Hann dvaldi svo á spítalanum í um sex daga og daginn eftir að hann kom heim fæddist svo sonur hans.

Hann segir spítaladvölina hafa verið erfiða. Á þriðja degi hafi hljóðhimnan sprungið, hann hafi verið með mikinn höfuðverk og misst heyrn öðru megin eftir að hljóðhimnan rofnaði. Hann var ekki með almennilega heyrn í eyranu í marga mánuði og segist hafa verið með suð eða bank í öðru eyranu.

Verkjakast í fimm eða sex daga

Fyrir ári síðan byrjaði hann svo að fá verkjaköst þar sem hann fékk mikinn hausverk einu sinni eða tvisvar á viku. Hann fór því til læknis og var sendur í sneiðmyndatöku og segulómun. Í júní stigmögnuðust svo verkirnir og hann segir að hvert verkjakast hafi beinlínis tekið hann úr umferð í um fimm eða sex daga.

„Ég gat staðið upp og gert eitthvað en þetta var eins og mígreniskast,“ segir Tomasz en að á sama tíma hafi hljóðið í eyranu magnast upp líka.

Hann hitti svo háls-, nef- og eyrnalækni í júní á þessu ári sem sagði ekkert hægt að gera. Tomasz segist hafa fengið myndirnar úr segulómtækinu og séð að það er munur á eyrum.

„Vinstra megin er alveg svart en hægra megin sérðu hvíta bletti á myndinni. Þetta er ekki venjulegt. Ég er ekki læknir en sá strax hvað er í gangi,“ segir hann og að hann hafi spurt gervigreind um hvaða sýkingu væri að ræða. Svarið hafi verið mastoiditis eða stikilbólga sem er sýking í stikilholrýmum gagnaugabeins og fylgikvilli miðeyrnabólgu.

Gervigreindin sagði á sama tíma að sýkingin væri ekki hættuleg ef það væru ekki verkir en ef það væru verkir þyrfti að bregðast við. Eftir þetta hitti Tomasz svo háls-, nef- og eyrnalækni í Póllandi sem mælti með aðgerð.

„Læknirinn horfði á myndirnar í tvær eða þrjár mínútur en ég fékk meiri upplýsingar í þessum tíma en ég hef fengið hér í tvö eða þrjú ár,“ segir hann og að niðurstaðan hafi verið að himnan á milli heila og beins sé svo þunn að það sé hættulegt og það tengist sýkingunni sem hann fékk árið 2022.

Neitar að framkvæma aðgerðina

Tomasz segir einn lækni framkvæma aðgerðina á Íslandi sem læknirinn í Póllandi hefur mælt með en hann vilji ekki framkvæma hana á honum því hann telji hana ekki breyta neinu fyrir hann. Hann vilji því fara í aðgerðina í Póllandi en Sjúkratryggingar muni þá ekki greiða fyrir hana. Aðgerðin kosti í heildina um eina milljón.

Hann segist trúa að aðgerðin geti virkað en það sem hún muni líka gera er að minnka líkur á að hann fái svona mikla verki fái hann eyrnabólgu aftur.

Tomasz segir ósanngjarnt að hann geti ekki fengið aðstoð en stefnir á aðgerðina seinna í þessum mánuði. Hann segist greiða fyrir hana sjálfur og á von á því að vera úti í nokkrar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×