Erlent

Dæmd í fangelsi fyrir á­reitið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Julia Wandel vakti mikla athygli árið 2023 þegar hún hélt því fram að hún væri í raun og veru Madeleine McCann.
Julia Wandel vakti mikla athygli árið 2023 þegar hún hélt því fram að hún væri í raun og veru Madeleine McCann. Samsett

Hin 24 ára gamla Julia Wandelt sem um árabil hefur sagst vera Madeilene McCann hefur verið fundin sek um áreiti í garð fjölskyldu hinnar týndu stúlku og dæmd til sex mánaða fangelsisvistar. Henni verður auk þess gert að halda sig fjarri fjölskyldunni til framtíðar.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu en Wandelt hefur farið heim til þeirra Kate og Gerry McCann og hringt ítrekað í þau í þeirri von að þau trúi því að hún sé týnd dóttir þeirra. Mál Madeleine McCann er heimsþekkt en stúlkan hvarf þriggja ára gömul í fjölskyldufríi í Portúgal árið 2007 og hefur hvorki tangur né tetur sést af henni síðan.

Wandelt er frá Lubin í suðvesturhluta Póllands en dómur yfir henni var kveðinn upp nú eftir hádegi. Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins að dómari hafi við dómsuppkvaðningu getið þess að tekið hafi verið tillit til þess að Wandelt hafi átt erfiða æsku.

„Það réttlætir hinsvegar ekki hvernig þú hagaðir þér,“ hefur ríkisútvarpið eftir dómaranum. Gögn voru lögð fram við réttarhöldin sem sanna það að Wandelt er ekki skyld McCann hjónunum með nokkrum hætti. Er þess getið í frétt BBC að það hafi tekið mjög á konuna þegar það kom fram í réttarhöldunum. Sagði dómarinn jafnframt að McCann hjónin hefðu gert henni það margsinnis ljóst að nærveru hennar væri ekki óskað og að þau hefðu ekki áhuga á kynnum við hana.

Wandelt hefur verið dæmd eins og áður segir til sex mánaða fangelsisvistar vegna málsins. Þar sem talið er mjög líklegt að hún muni halda uppteknum hætti og halda áfram að áreita fjölskylduna úrskurðaði dómarinn hana jafnframt í nálgunarbann við McCann hjónin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×