Körfubolti

„Þarf ekki að láta aðra segja mér hvort að liðið sé nógu gott“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Finnur Freyr lætur ekki aðra segja sér til um eigið lið. 
Finnur Freyr lætur ekki aðra segja sér til um eigið lið.  Vísir / Guðmundur

Finnur Freyr, þjálfari Vals, var að vonum sáttur með sigur sinna manna á liði ÍA í Bónus deild karla á Akranesi í kvöld. Sigurinn var torsóttur en mikilvægur eftir erfiða byrjun í deildinni.

„Ég er gríðarlega ánægður eftir afhroðið í síðustu viku. Þetta var 50/50 leikur og við náum stundum svona 10-11 stiga forskoti en náum ekki alveg að fara úr 11 í 16 stig. Skaginn gerir vel, þeir hitta vel fyrir utan og ná slatta af sóknarfráköstum. Þeir náðu að drepa augnablikin hjá okkur. Svo vorum við hinum megin ekki alveg nógu beinskeittir að klára færin sem við fengum,“ sagði Finnur Freyr strax eftir leik.

Eins og Finnur nefnir nær Valsliðið nokkrum sinnum að komast 11 stigum yfir og virðist vera að sigla með leikinn þegar Skagamenn stíga upp og minnka muninn aftur.

„Menn setja mikla orku í þetta alltaf og svo kannski missa menn aðeins einbeitingu og fara að flýta sér of mikið eða ætla sér aðeins of mikið. Á sama tíma er slakað aðeins á varnarlega. Það er einn af þeim þáttum sem hafa verið að hrjá okkur í vetur að lesa ekki betur í aðstæðurnar. Það komu svoleiðis augnablik í dag en að sama skapi önnur sem voru góð. Það er vinna framundan og eins og allt annað í lífinu er þetta upp og niður. Við fórum hressilega niður í síðustu viku,“ sagði Finnur.

Skagamenn léku sinn fyrsta heimaleik í glænýju Íþróttahúsi við Jaðarsbakka, AvAir höllina. Valsmenn reiknuðu með því að leikurinn yrði erfiður.

„Ég er bara gríðarlega ánægður að ná í sigur í þessu glæsilega húsi skagamanna. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur að mæta svona flottu liði í nýju höllinni sinni. Ég var virkilega hrifinn til dæmis af Styrmi. Skaginn með alla þessa flottu mætingu mega vera mjög bjartsýnir með framhaldið,“ sagði Finnur um nýja húsið og lið ÍA.

Gengi Vals hefur verið brösótt í upphafi tímabils og liðið valdið vonbrigðum. Finnur Freyr kippir sér ekki upp við áhyggjur annarra.

„Ég er búinn að vera það lengi í þessu að ég þarf ekki að láta aðra segja mér hvort að liðið sé nógu gott eða ekki. Við erum ekki ánægðir með okkar frammistöðu hingað til. Við þurfum að ná að finna taktinn og finna hlutina sem við viljum gera. Við erum ennþá að gera mikið af mistökum, einföld mistök sem við eigum ekki að gera. Deildin er þannig í ár að manni er refsað strax ef maður gerir mistök. Svo þegar það er óöryggi þá hefur það áhrif á sjálfstraustið og menn ekki alveg með sitt á hreinu á vellinum. Það er verkefnið næstu dagana en maður hefur séð þetta allt áður og þetta eru verkefni sem ég hlakka til þess að takast á við,“ sagði þjálfari Vals að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×