Körfubolti

Banninu af­létt og Bret­land mun mæta Ís­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Breska sambandið hafði betur í baráttunni við FIBA.
Breska sambandið hafði betur í baráttunni við FIBA. Milad Payami/FIBA via Getty Images

Alþjóða körfuknattleikssambandið FIBA hefur aflétt tímabundna banninu sem var sett á breska körfuknattleikssambandið. Ísland og Bretland munu því geta spilað leikinn sem er settur þann 30. nóvember næstkomandi.

Breska karlalandsliðið í körfubolta var sett í keppnisbann vegna þess að körfuknattleikssamband Bretlands samþykkti af stofna nýja ofurdeild, að frumkvæði bandaríska auðjöfursins Marshall Glickmann.

Banninu hefur nú verið aflétt og FIBA hefur heitið því að hefja viðræður við breska körfuknattleikssambandið um að viðurkenna hina nýju ofurdeild, Super League Basketball.

Bretland mun því geta tekið fullan þátt í undankeppninni fyrir HM 2027, sem hefst þann 27. nóvember næstkomandi. Bretland mætir Litáen í fyrsta leik og spilar svo við Ísland þremur dögum síðar í Laugardalshöllinni, þann 30. nóvember.

Ítalía er einnig í riðlinum og þrjú efstu liðin halda áfram á næsta stig undankeppninnar en síðustu leikirnir í riðlinum verða spilaðir í byrjun júlí á næsta ári.

Craig Pedersen mun stýra Íslandi áfram, hann framlengdi samning sinn nýlega til ársins 2029. Honum hefur ekki tekist hingað til að stýra liðinu inn á heimsmeistaramót en Ísland hefur þrisvar komist á Evrópumót undir hans stjórn, síðast í sumar þar sem liðið hafnaði í 22. sæti, einu sæti neðar en Bretland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×