Bíó og sjónvarp

Hannes í víking með gaman­sama glæpamynd

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson hefur leikstýrt þáttunum um Iceguys og kvikmyndinni Leynilöggu.
Hannes Þór Halldórsson hefur leikstýrt þáttunum um Iceguys og kvikmyndinni Leynilöggu. Iceguys

Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður og leikstjóri, mun leikstýra kvikmyndinni The Bus Job sem til stendur að taka upp á Íslandi og í Danmörku á næsta ári.

Breska kvikmyndatímaritiðScreendaily greinir frá fregnunum. Fram kemur að um glæpamynd með gamansömu ívafi sé að ræða en myndin fjallar um einstæðan föður sem í örvæntingu sinni leggur á ráðin um að ræna fótboltaliði í efstu deild í Danmörku.

Auk þess að leikstýra skrifar Hannes handritið ásamt Davíð Gill Jónssyni og Ninu Pedersen. 

Birgitta Björnsdóttir og Þórir Snær Sigurjónsson framleiða myndina fyrir Zik Zak með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Danska kvikmyndadrefingarfyrirtækið Scanbox Entertainment, sem Þórir stýrir, mun dreifa myndinni á Norðurlöndunum og taka þátt í framleiðslu.

Þrífst þar sem húmor og hasar mætast

Hannes hefur reynslu af því að blanda saman hasar og húmor, þar má nefna Leynilögguna og sjónvarpsþættina Iceguys. Þá hefur hann leikstýrt gamanþáttunum Bannað að hlæja auk fjölda auglýsinga.

„Eins og Leynilöggan og Iceguys sýna, þá þrífst ég þar sem húmor, hasar á stórum skala og kröftug frásögn mætast,“ segir Hannes Þór í tilkynningu.

„Með þessari sögu sá ég tækifæri til að taka þennan kvikmyndakokteil, sem við sjáum sjaldan í íslenskri kvikmyndagerð, og færa hann á stærra og alþjóðlegra svið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.