Erlent

Rann­saka haka­krossa sem voru málaðir með blóði úr manni

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður mælir hakakrossa sem voru málaðir með blóði utan á húsvegg í Hanau í Þýskalandi á miðvikudag.
Lögreglumaður mælir hakakrossa sem voru málaðir með blóði utan á húsvegg í Hanau í Þýskalandi á miðvikudag. AP/Michael Probst

Tugir bíla, póstkassar og húsveggir voru saurgaðir með hakakrossum sem voru málaðir með blóði úr manni í borginni Hanau í Þýskalandi í vikunni. Lögregla rannsakar spellvirkin en tákn nasismans eru ólögleg í Þýskalandi.

Tilkynnt var um hakakrossa sem virtust hafa verið málaðir með rauðlitum vökva á hátt í fimmtíu kyrrstæða bíla í Hanau á miðvikudagskvöld. Bráðabirgðarannsókn leiddi í ljós að þeir höfðu verið málaðir með blóði úr manni, að sögn AP-fréttastofunnar.

Ekki liggur fyrir hvort að bílarnir, póstkassarnir og veggirnir hefðu verið valdir af handahófi eða með markvissum hætti. Talsmaður lögreglunnar segir heldur ekki ljóst hver framdi skemmdarverkin eða hvaðan blóðið sem var notað kom.

Blóð sem makað var á póstkassa á sama tíma og hakakrossar voru málaðir á bíla í Hanau.AP/Michael Probst

Claus Kaminsky, borgarstjóri Hanau, segir spellvirkin valda sérstakri geðshræringu í borginni í ljósi hryðjuverkaárásar þýsks karlmanns sem skaut níu manns af innflytjendaættum til bana þar í febrúar árið 2020.

„Það sem gerðist hér fer út fyrir öll mörk velsæmis og mannúðar. Hakakrossar eiga sér engan stað í Hanau. Við leyfum slíkum táknum ekki að sá ótta eða sundrung,“ sagði Kaminsky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×