Körfubolti

Tryggvi með flest frá­köst í Evrópusigri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason reif til að mynda til sín 13 fráköst í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason reif til að mynda til sín 13 fráköst í kvöld. Getty/Marcin Golba

Tryggvi Snær Hlinason tók flest fráköst á vellinum með liði sínu Bilbao sem vann öruggan 86-64 sigur á Peristeri frá Grikklandi í Evrópubikar karla í körfubolta í kvöld.

Bilbao var sæti neðar en Peristeri í riðli liðanna í keppninni eftir naumt tap í innbyrðis leik liðanna í Baskalandi í síðustu umferð. Bilbao svaraði fyrir sig í Grikklandi í kvöld með öruggum sigri.

Leikurinn var jafn framan af en Bilbao skrefi á undan. Liðið skoraði svo tíu fyrstu stig fjórða leikhlutans til að ná 17 stiga forskoti. Peristeri komst ekki á blað fyrr en lokaleikhlutinn var hálfnaður en tókst ekki að vinna bilið upp.

Leiknum lauk 86-64 fyrir Bilbao.

Bæði lið með sjö stig en Bilbao fyrir ofan vegna stærri sigurs í kvöld en Peristeri vann á Spáni.

Tryggvi Snær var frákastahæstur á vellinum með 13 slík, þrátt fyrir að spila aðeins tæplega 20 mínútur í leiknum. Hann skoraði einnig átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×