Viðskipti innlent

Full­yrðingar Sigurðar um minni verð­bólgu standist ekki

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hagstofa Íslands segir fullyrðingar Sigurðar Hannessonar ekki standast.
Hagstofa Íslands segir fullyrðingar Sigurðar Hannessonar ekki standast. Samsett

Hagstofan segir að ummæli framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, um að vísitala neysluverðs, eða verðbólga, hefði mælst töluvert minni ef ekki hefði verið skipt um reikniaðferð í fyrra, standist ekki. Hann sagði að samkvæmt gömlu reiknireglunni væri verðbólgan prósentustigi lægri. Hagstofan segir fullyrðinguna ekki standast.

Meðal verkefna Hagstofu Íslands er að reikna út vísitölu neysluverðs, eða verðbólgu, sem segir til um hver neysluútgjöld heimila í landinu eru. Í maí 2024 var hins vegar ákveðið að breyta reikniaðferðinni.

„Í júní sl. var tekin upp ný aðferð sem felst í því að nota gögn um húsaleigu til að reikna húsaleiguígildi fyrir fasteignir sem eigendurnir búa í,“ skrifaði Karen Á. Vignisdóttir, aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu, á heimasíðu Seðlabankans í desember 2024. Þar reifaði hún aðferðirnar og möguleg áhrif þess að breyta reikniaðferðinni.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í Silfrinu á RÚV í gærkvöldi að staðan væri önnur ef ekki hefði verið breytt um reikniaðferð.

„Nú er verðbólgan 4,3% og hefur verið býsna þrálát, ef við værum enn þá með gömlu aðferðina, þá væri verðbólgan 3,3%, þá væri verið að lækka vexti og við værum í allt annarri efnahagslegri stöðu,“ sagði Sigurður, í Silfrinu á RÚV, þar sem staða húsnæðismála var til umræðu.

Í kjölfar umræðunnar svaraði Hagstofan gagnrýninni með færslu á Facebook og segja fullyrðingu Sigurðar ekki standa.

„Fullyrðingin um að árshækkun vísitölu neysluverðs hefði verið 3,3 prósent með óbreyttri aðferð fyrir reiknaða húsaleigu stenst ekki. Hagstofan hefur ekki gefið út mat á reiknaðri húsaleigu skv. eldri aðferðum síðan í maí 2024 en út frá gögnum um vísitölu markaðsverðs húsnæðis og gögnum um verðtryggða vexti er ljóst að litlu hefði munað milli aðferða,“ segir í færslunni.

Þar er einnig áréttað að ákvarðanir um aðferðir byggi á aðferðafræðilegu mati en ekki einstaka mæligildum.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×