Viðskipti innlent

Gengi Alvotech aldrei lægra

Árni Sæberg skrifar
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Vilhelm

Gengi hlutabréfa í íslenska líftæknifyrirtækinu Alvotech lækkaði um rúmlega 28  prósent í dag. Gengið stendur nú í 680 krónum á hlut og hefur aldrei verið lægra. Lækkunin í kauphöllinni í Svíþjóð nemur 31,17 prósentum og það sem af er degi vestan hafs hefur gengið lækkað um rúm 30 prósent.

Alvotech fær ekki að svo stöddu markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir líftæknilyfið AVT05 sem er hliðstæðulyf við Simponi, sem er lyf við gigt. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Alvotech sendi frá sér í gærkvöldi í framhaldi af svarbréfi frá Lyfjastofnun Bandaríkjanna, FDA, sem hafði borist fyrirtækinu. 

Samhliða tilkynningu þess efnis færði Alvotech afkomuspá sína niður.

Gengi félagsins lækkaði skarpt þegar markaðir opnuðu í morgun, bæði í Svíþjóð og hér á landi. Markaðir eru enn opnir í Bandaríkjunum, þar sem félagið er einnig skráð. Þar hefur gengið lækkað um 30,92 prósent þegar þessi frétt er skrifuð klukkan 16.

Gengi félagsins í Kauphöllinni stendur nú í 680 krónum en hafði fyrir daginn lægst farið niður í 796 krónur. Það var þann 23. nóvember árið 2022.

Gengi félagsins hefur lækkað um sléttan þriðjung síðastliðinn mánuð, um 61,69 prósent á árinu og 62,64 prósent á einu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×