Erlent

Segir Repúblikönum að beita kjarnorkuúrræðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Mark Schiefelbein

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að leiðtogar Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni beiti kjarnorkuúrræðinu svokallaða eða því sem Trump kallar einnig „Trump-spilið“. Það er að fella úr gildi regluna um aukinn meirihluta í þingdeildinni, svo hægt verði að opna á rekstur alríkisins á nýjan leik.

Reglan um aukinn meirihluta snýst um að í öldungadeildinni þarf oftar en ekki atkvæði sextíu þingmanna af hundrað, til að gera frumvarp að lögum.

Repúblikanar eru með 53 sæti í öldungadeildinni og flestir Demókratar hafa ekki viljað greiða atkvæði með bráðabirgðafjárlögum Repúblikana, sem samþykkt voru með einföldum meirihluta í fulltrúadeildinni, og var rekstur ríkisins því stöðvaður þann 1. október.

Repúblikanar höfðu Demókrata ekki með í ráðum þegar frumvarpið var samið, þó þeir vissu að þeir þyrftu á atkvæðum þeirra að halda. Demókratar hafa ekki viljað samþykkja frumvarpið vegna þess að Repúblikanar ætla að láta ívilnanir varðandi heilbrigðistryggingar falla úr gildi og þeir vilja einnig að hætt verði við niðurskurð til tryggingakerfis sem kallast Medicaid.

Þar að auki hafa Demókratar gagnrýnt harðlega að ríkisstjórn Trumps hafi neitað að fara eftir fjárlögum þingsins í þó nokkrum tilfellum, þyki fjárútlátin ekki fylgja áherslum ríkisstjórnarinnar.

Sjá einnig: Reynir að taka fleiri spil úr stokki þingsins

Repúblikanar hafa ekki viljað semja við Demókrata og segja að það verði hægt þegar búið verði að opna á ríkisreksturinn aftur. Demókratar segjast hafa enga ástæðu til að treysta Repúblikönum. Þeir segja einnig að þó að þeir semji við Repúblikana geti Trump gert það sem honum sýnist, burtséð frá því hvað þeir semja um.

Segir Demókrata „óða geðsjúklinga“

Í langri færslu sem hann skrifaði á Truth Social, samfélagsmiðil sinn, í nótt sagði Trump að John Thune, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, og Mike Johnons, forseti fulltrúadeildarinnar, væru að standa sig frábærlega í starfi.

Demókratar væru hins vegar „óðir geðsjúklingar“ sem væru búnir að missa vitið.

Forsetinn laug því að Demókratar væru að berjast fyrir því að veita fólki sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum heilbrigðisþjónustu, eins og Repúblikanar og ríkisstjórn Trumps hafa ítrekað haldið fram, en það er ekki rétt.

Trump sagði að þetta fólk ætti slíkt ekki skilið. Þetta væri fólk sem hefði komið til Bandaríkjanna með ólöglegum hætti og margir úr fangelsum eða geðheilbrigðisstofum.

Því kallaði hann eftir því að Thune felldi úr gildi reglu öldungadeildarinnar um aukinn meirihluta. Þannig sagði Trump að hægt væri að opna á rekstur alríkisins á nýjan leik og það strax.

„Nú er kominn tími fyrir Repúblikana til að beita „Trump-spili“ þeirra, og beita því sem kallað er kjarnorkuúrræðið. Losið ykkur við regluna um aukinn meirihluta, STRAX!“

Trump sagði einnig í færslunni að Demókratar hefðu lengi ætlað sér að fella þessa reglu úr gildi en hefðu ekki getað það. Þeir hefðu viljað fjölga dómurum í Hæstarétti Bandaríkjanna og fylla réttinn af sínu fólki. Hann sagði þá einnig vilja gera Washington DC og Púertó Ríkó að ríkjum Bandaríkjanna og þar með fjölga sínum öldungadeildarþingmönnum um fjóra og fá fjölmörg sæti í fulltrúadeildinni.

Hann sagði að nú væru Repúblikanar með völdin og þeir þyrftu að nýta þau, sérstaklega til að að fella regluna um aukinn meirihluta almennt úr gildi og opna ríkisreksturinn aftur.

Í viðbótarfærslu, þar sem hin virðist hafa verið of löng, bætti Trump við Repúblikanar hefðu einungis einn valkost, vegna þess að Demókratar hefðu misst vitið.

„BEITIÐ „KJARNORKUÚRRÆÐINU“, LOSIÐ YKKUR VIÐ REGLUNA UM AUKINN MEIRIHLUTA OG GERIÐ AMERÍKIU MIKLA Á NÝ!“

Hvort leiðtogar Repúblikanaflokksins verði við þessar kröfu Trumps verður að koma í ljós en það mun ekki gerast fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi. Þingmenn öldungadeildarinnar fóru í langt helgarfrí í gær. Þar með tryggðu þeir svo gott sem að þessi stöðvun ríkisreksturs Bandaríkjanna yrði sú lengasta í sögunni. 

Á morgun (laugardag) rennur úr gildi mataraðstoð ríkisins sem kallast SNAP en áttundi hver Bandaríkjamaður er sagður reiða á þessa aðstoð, samkvæmt AP fréttaveitunni.


Tengdar fréttir

Flóttamönnum fækkað úr 125.000 í 7.500

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að taka á móti í mesta lagi 7.500 flóttamönnum á næsta ári. Um er að ræða verulega fækkun en viðmið ríkisstjórnar Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, var 125.000 flóttamenn.

Kallar Biden ljótan að utan sem innan og vill hann í fangelsi

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kallaði í dag eftir því að Joe Biden, forveri hans, yrði settur í fangelsi. Í færslu á sínum eigin samfélagsmiðli sagði Trump að Biden væri glæpamaður, „meiriháttar lúsablesi (Lowlife)“, algerlega misheppnaður og ljótur að utan sem að innan.

Losa hreðjatakið í eitt ár

Donald Trump og Xi Jinping, forsetar Bandaríkjanna og Kína, virðast hafa slíðrað sverðin, ef svo má segja, í viðskiptadeilum ríkjanna. Trump tilkynnti að tollar á vörur frá Kína yrðu lækkaðir um tíu prósent og yrðu 47 prósent. Kínverjar ætla í staðinn að fresta gildistöku umfangsmikilla takmarkana á sölu og flutning sjaldgæfra málma og afurða úr þeim um eitt ár.

Vill hefja tilraunir með kjarnavopn að nýju

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú fyrirskipað Bandaríkjaher að hefja að nýju tilraunir með kjarnorkuvopn en slíkar tilraunir hafa ekki verið gerðar í rúm þrjátíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×