Sport

Heimsleikarnir í CrossFit 2026 klárast fyrir verslunar­manna­helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sjáum við Söru Sigmundsdóttur aftur á heimsleikunum? Það myndi gleðja marga að sjá hana komast aftur þangað á næsta ári eftir langa fjarveru.
Sjáum við Söru Sigmundsdóttur aftur á heimsleikunum? Það myndi gleðja marga að sjá hana komast aftur þangað á næsta ári eftir langa fjarveru. @sarasigmunds

Íslenska CrossFit-fólkið veit nú hvaða leið þarf að fara ef það ætlar að komast inn á heimsleikana á næsta ári.

CrossFit-samtökin gáfu í gær út allar dagsetningar fyrir komandi keppnistímabil í CrossFit.

Ísland átti engan fulltrúa á heimsleikunum á þessu ári og var það í fyrsta sinn í sautján ár sem það gerist. Vonandi tekst okkar fólki að sjá til þess að það gerist ekki aftur á næsta ári.

Keppnisárið 2026 byrjar að sjálfsögðu með The Open sem fer af stað 27. febrúar og endar með heimsleikunum 24. til 27. júlí.

Open-vikurnar eru þrjár: 26.1 er frá 27. febrúar til 1. mars, 26.2 er frá 6. til 8. mars og 26.3 er frá 13. til 15. mars.

Fjórðungsúrslitin verða síðan frá 27. til 29. mars í gegnum netið og eftir það veit íþróttafólkið hvort það kemst inn á undanúrslitamót eða ekki.

Undanúrslitamótin verða tólf út um allan heim í eigin persónu og svo einnig eitt í gegnum netið.

Íslenska CrossFit-fólkið fer í gegnum undanúrslitamót Evrópu sem eru tvö og fara fram í París og í útborg Madrid.

French Throwdown fer fram í París frá 15. til 17. maí en þar verða þrjú sæti í boði á heimsleikana í karlaflokki, í kvennaflokki og hjá liðum.

Hitt Evrópumótið er Mad Fitness Festival í Ciudad Real á Spáni frá 29. til 31. maí en þar verða þrjú sæti í boði á heimsleikana í karlaflokki og í kvennaflokki en auk þess eitt sæti hjá liðum.

Heimsleikarnir verða færðir fram og munu á næsta ári klárast fyrir verslunarmannahelgina. Heimsleikarnir fara fram frá 24. til 26. júlí 2026. Þrjátíu karlar og þrjátíu konur tryggja sér sæti á heimsleikunum en þeir fara að þessu sinni fram í SAP Center í borginni San Jose í Kaliforníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×