Fimmta tapið í síðustu sex hjá Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dango Ouattara kom heimamönnum á bragðið í kvöld.
Dango Ouattara kom heimamönnum á bragðið í kvöld. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Eftir öruggan 5-1 útisigur gegn Frankfurt í Meistaradeildinni í miðri viku mátti Liverpool þola 3-2 tap er liðið heimsótti Brentford í ensku úrvalsdieldinni í kvöld. Liðið hefur nú tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum.

Slæmt gengi Liverpool virtist vera að taka enda þegar liðið sótti öruggan sigur gegn Frankfurt síðastliðinn miðvikudag þar sem fimm leikmenn liðsins voru á skotskónum.

Gestirnir frá Liverpool lentu þó í stökustu vandræðum með Brentford í kvöld og Dango Ouattara kom heimamönnum yfir strax á fimmtu mínútu.

Kevin Schade tvöfaldaði svo forystu heimamanna á síðustu mínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik áður en Milos Kerkez minnkaði muninn í uppbótartíma, með síðustu snertingu leiksins fyrir hlé.

Líkt og í fyrri hálfleik voru gestirnir í Liverpool meira með boltann en Brentford í þeim síðari. Þrátt fyrir það tókst Brentford að bæta þriðja markinu við þegar Igor Thiago skoraði af vítapunktinum eftir klukkutíma leik. Virgil van Dijk hafði þá stuttu áður verið dæmdur brotlegur á vítateigslínunni.

Gestirnir sóttu stíft það sem eftir lifði leiks og Mohamed Salah, sem annars hafði ekki átt sinn besta leik, minnkaði muninn fyrir Liverpool með glæsilegu marki á 89. mínútu og gaf gestunum von.

Fleiri urðu mörkin þó ekki og niðurstaðan varð 3-2 sigur Brentford sem nú situr í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir níu leiki, tveimur stigum minna en Liverpool sem situr í sjötta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira