Skoðun

Enn er verk að vinna – upprætum of­beldi á vinnu­stöðum

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir skrifar

Fyrir 111 árum, þann 25. október 1914, komu konur í Reykjavík saman og stofnuðu verkakvennafélagið Framsókn. Hugmyndin um sérstakt stéttarfélag fyrir konur spratt úr kvenréttindahreyfingunni, sem lagði áherslu á að fjárhagslegt sjálfstæði og mannsæmandi vinnuaðstæður væru forsenda borgaralegra réttinda kvenna og jafnréttis kynjanna.

Baráttan fyrir kjarajafnrétti og öryggi á vinnustað hefur því frá upphafi verið samfléttuð baráttunni fyrir kvenfrelsi og jafnrétti. Það var krafan um jöfn laun sem fékk konur á Íslandi til að ganga út af vinnustöðum og heimilum á kvennafrídegi 1975. Og það er krafan um jöfn laun og frelsi frá ofbeldi, hvort sem er á vinnustað eða utan, sem hefur verið drifkraftur kvennaverkfalla á Íslandi síðan þá.

Ofbeldi og áreitni er landlægt í samfélaginu

Við höfum náð langt síðustu áratugina við að tryggja sjálfsögð mannréttindi og kjör kvenna, en við eigum þó enn töluvert í land til að ná fullu jafnrétti kynjanna. Ein stærsta meinsemdin í samfélaginu er ofbeldi gegn konum, ofbeldi sem á sér stað ekki aðeins innan veggja heimilanna eða í myrkum skuggasundum, heldur einnig á björtum vinnustöðum.

Einelti og áreitni er landlægt á íslenskum vinnumarkaði. #MeToo-byltingin árið 2018 afhjúpaði skelfilegar frásagnir af ofbeldi og áreitni sem konur hafa orðið fyrir í vinnunni, frásagnir sem því miður eru ekki einsdæmi. Í rannsókn sem Félagsmálaráðuneytið lét gera á umfangi eineltis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni á vinnumarkaði árið 2020 kom fram að rúmlega 20% launafólks hefur á starfsferli sínum orðið fyrir einelti á vinnustað, 16% hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni og um 10% hefur orðið fyrir kynbundinni áreitni. Hlutfall kvenna sem hafa orðið fyrir áreitni á vinnustað er hærra, en í rannsókninni Áfallasögu kvenna við Háskóla Íslands kemur fram að 32% kvenna hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað einhvern tímann á lífsleiðinni.

Ísland uppfyllir ekki alþjóðlegar skuldbindingar um að uppræta ofbeldi

Árið 2019 samþykkti Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) samþykkt sem tekur á ofbeldi og áreitni á vinnustað – Samþykkt ILO nr. 190, aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni á vinnustöðum. Samþykktin skuldbindur aðildarríki til að grípa til forvarna og aðgerða gegn áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfinu og kallar á virkar aðgerðir atvinnurekenda og stjórnvalda til að koma í veg

fyrir og bregðast við slíkum brotum. Ekki er enn búið að fullgilda þennan sáttmála hér á Íslandi. Erum við þar eftirbátar norrænu frændþjóða, en Noregur fullgilti sáttmálann árið 2023 og Danmörk og Finnland árið 2024.

Minnumst baráttu formæðra okkar

Í ár minnumst við þess að fimmtíu ár eru liðin frá því að konur fóru fyrst í verkfall og sameinuðust í kröfu um jöfn kjör á vinnumarkaði. Við minnumst einnig þess að 140 ár eru liðin frá upphafi skipulagðrar kvenréttindabaráttu á Íslandi, þegar Bríet Bjarnhéðinsdóttir birti grein í tímaritinu Fjallkonunni og tók þannig til máls um kvenréttindi og stöðu kvenna, fyrst kvenna á Íslandi.

Þrátt fyrir þrotlausa baráttu Bríetar og allra þeirra kvenna, karla og kvára sem hafa fylgt í hennar spor, höfum við ekki enn náð að tryggja fullt jafnrétti kynjanna, hvorki á vinnumarkaði né í samfélaginu í heild. Skref í rétta átt væri að fullgilda samþykkt ILO nr. 190 og tryggja þannig að atvinnurekendur og stjórnvöld beri ábyrgð á að koma í veg fyrir ofbeldi á vinnustöðum og styðja þolendur.

Viska hvetur íslensk stjórnvöld til að fullgilda samþykkt ILO nr. 190 um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni á vinnustöðum tafarlaust.

Höfundur er formaður Visku – stéttarfélags.




Skoðun

Skoðun

Einu sinni enn

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ég hef…

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Sjá meira


×