Sport

Tíma­mót Dags Kára en Japaninn varð heims­meistari

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Kári Ólafsson er fyrsti Íslendingurinn til að keppa í úrslitum í fjölþraut á HM.
Dagur Kári Ólafsson er fyrsti Íslendingurinn til að keppa í úrslitum í fjölþraut á HM. FSÍ

Dagur Kári Ólafsson skráði sig í sögubækurnar í dag þegar hann varð fyrstur Íslendinga til að keppa í úrslitum í fjölþraut á heimsmeistaramóti í áhaldafimleikum, í Jakarta í Indónesíu.

Dagur Kári náði 24. og þar með síðasta sætinu inn í úrslitin og hann endaði sömuleiðis í því sæti í úrslitunum, afar nálægt næsta manni.

Dagur hlaut samtals 73,332 í einkunn og var aðeins 0,032 stigum á eftir Egyptanum Omar Mohamed.

Dagur byrjaði á svifrá og fékk 11,333 í einkunn þar. Hann fékk svo 11,433 á gólfi, 12,133 á bogahesti, 11,500 í hringjum og 13,300 í stökki, en hlaut sína bestu einkunn á síðasta áhaldinu þegar hann fékk 13,633 á tvíslá.

Það var Japaninn Daiki Hashimoto sem fagnaði heimsmeistaratitlinum, eftir afar spennandi keppni, og er hann aðeins annar maðurinn í sögunni til þess að vinna heimsmeistaratitilinn í fjölþraut þrisvar í röð, eftir að hafa einnig unnið 2022 og 2023.

Daiki Hashimoto sýndi mögnuð tilþrif og tryggði sér heimsmeistaratitilinn.Getty/Yong Teck

Ólympíumeistarinn frá því í fyrra, Shinnosuke Oke, hafnaði aðeins í fimmta sæti með 81,797 stig. Heimsmeistarinn frá árinu 2021, Boheng Zhang, veitti Hashimoto mesta keppni. Japaninn endaði með 85,131 í heildareinkunn en hinn kínverski Zhang með 84,333. Noe Seifert frá Sviss hlaut bronsið með 82,831 í einkunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×